Neyðarástandi lýst yfir í Túnis

Forseti Túnis, Beji Caid Essebsi, hefur lýst yfir neyðarástandi og útgöngubanni í höfuðborginni eftir að tólf létust í sprengjutilræði sem beint var gegn lífvörðum forseta í gær.

Sprengjan sprakk í rútu með lífvörðum forsetans og létust flestir þeirra sem voru í rútunni, samkvæmt heimildum AFP fréttastofunnar innan úr búðum öryggissveita landsins.

Engin hryðjuverkasamtök hafa lýst því yfir að þau beri ábyrgð á tilræðinu en um 20 særðust í árásinni. Sprengjan sprakk þegar rútan ók um Mohamed V Avenue, rétt hjá þeim stað þar sem stór kvikmyndahátíð stendur yfir.

Neyðarástandið gildir í þrjátíu daga og útgöngubann er í gildi frá klukkan 9 á kvöldin til fimm á morgnana.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert