Obama hughreystir þjóð sína

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna.
Barack Obama, forseti Bandaríkjanna. AFP

Bandaríkjamenn eru sumir hverjir uggandi yfir hugsanlegum árásum hryðjuverkamanna nú þegar þakkargjörðarhátíðin er á næsta leiti. Sá Barack Obama Bandaríkjaforseti sig knúinn til að hughreysta landa sína og sagði meðal annars ríkisstjórn sína fylgjast grannt með gangi mála.

„Ég vil að bandaríska þjóðin viti að við tryggjum nú með öllum ráðum öryggi landsins,“ hefur fréttaveita AFP eftir forsetanum, sem jafnframt hvatti til stillingar, en ótti almennings vestanhafs hefur aukist mjög í kjölfar hryðjuverkanna í París 13. nóvember síðastliðinn.

Utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna hefur sent út viðvörun þar sem bent er á aukna ógn vegna hryðjuverka.

„Það er skiljanlegt að fólk hafi áhyggjur af því að sambærilegt voðaverk verði framið hér. [...] En eins og staðan er nú höfum við engar sannfærandi upplýsingar sem benda til þess að verið sé að leggja á ráðin um hryðjuverk hér,“ er haft eftir forsetanum.

Vilja landhernað gegn Ríki íslams

Ný könnun CBS í Bandaríkjunum sýnir fram á að einungis 23% Bandaríkjamanna telja að ríkisstjórn Baracks Obama forseta búi yfir skýrri stefnu þegar kemur að Ríki íslams og hvernig best sé að eiga við vígasamtökin. 

Hefur hann t.a.m. verið gagnrýndur fyrir að sýna ekki nógu mikla hörku í loftárásum á Ríki íslams í Sýrlandi og fyrir að útiloka með öllu landhernað gegn samtökunum.

Þá sýnir ný könnun Gallup stuðning meirihluta almennings í Bandaríkjunum við landhernað gegn Ríki íslams.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert