Undirbjuggu árás á La Défense

Staðið vörð um La Defense
Staðið vörð um La Defense AFP

Abdelhamid Abaaoud, höfuðpaurinn í hryðjuverkaárásunum í París, undirbjó sjálfsvígsárás á fjármálahverfi Parísarborgar, La Défense, að sögn saksóknara í París, Francois Molins.

Að sögn Molins hefur þetta komið fram við rannsókn á árásunum sem kostuðu 130 lífið. Abaaoud var drepinn ásamt frænku sinni og öðrum manni í áhlaupi lögreglu á íbúð sem þau héldu til í fyrir viku síðan. Helstu stórfyrirtæki Frakklands eru með höfuðstöðvar sínar í La Défense hverfinu vestur af París.

Hryðjuverkamennirnir Abaaoud og félagi hans ætluðu að sprengja sig upp í hverfinu 18. nóvember eða fimmtudaginn 19. nóvember, sagði Molins við fjölmiðla í gær.

Enn hefur ekki verið upplýst um hver maðurinn er sem fannst látinn í íbúðinni í Saint Denis eftir áhlaup lögreglu. Saksóknari útilokar ekki að það sé sá sami og tók þátt í skotárás á veitingastað og kaffihús í tíunda hverfi þar sem fjölmargir létust. 

Saksóknari segir að frænka Abaaoud, Hasna Aitboulahcen, hafi tekið þátt í að undirbúa athvarf fyrir frænda sinn og hinn manninn og að hún hafi vitað allt um aðild hans að árásunum 13. nóvember.

Í fyrstu var talið að hún hafi framið sjálfsvíg með því að sprengja sig upp en saksóknari segir að nú sé talið að hún hafi kafnað þegar óþekkti maðurinn virkjaði sprengjubelti sem hann bar. 

Að sögn Molins þá hafa náðst fingraför og lífsýni úr manninum en þau koma ekki heim og saman við neina þá sem eru á skrá í Frakklandi. Þau eiga hins vegar við fingraför sem fundust á Kalashnikov riffli sem fannst í bifreið sem talin er að hafi verið notuð í árásunum.

Belgísk yfirvöld hafa gefið út alþjóðlega handtökuskipun á hendur á hættulegum manni sem sást aka bifreið sem Salah Abdeslam var farþegi í tveimur dögum áður en grimmdarverkin voru framin í París.

Mohamed Abrini, sem er þrítugur að aldri,  náðist á öryggismyndavél ásamt Abdeslam á bensínstöð í Ressons, norður af París. Þeir óku Renault Clio bifreið sem síðar var notuð við árásirnar, segir í tilkynningu frá ríkissaksóknara Belgíu. Abdeslam er enn ófundinn, 11 dögum eftir blóðbaðið í París.

Á fundi með blaðamönnum í París í gær sagði Molins að sprengjubeltið sem fannst í ruslapoka í úthverfi Parísar, Montrouge, á mánudag hafi verið af nákvæmlega sömu gerð og þau sprengjubleti sem notuð voru við sjálfsvígsárásirnar í París.

Gögn sem sérfræðingar hafa fundið sýna að Abaaoud hafi verið á ferðinni skammt frá Bataclan tónleikahöllinni þegar tilræðið stór þar enn yfir. Þar létust 90 manns en þrír hryðjuverkamenn gerðu þá árás.

Eins sýna gögn úr símum að Abaaoud hafi verið í samskiptum við Bilal Hadfi, einn þeirra sem sprengdi sig upp við þjóðarleikvang Frakka, Stade de France, í gegnum síma.

AFP
Gefin hefur verið út alþjóðleg handtökuskipun á hendur Mohamed Abrini
Gefin hefur verið út alþjóðleg handtökuskipun á hendur Mohamed Abrini AFP
Frá La Défense
Frá La Défense AFP
Staðið vörð um La Defense
Staðið vörð um La Defense AFP
AFP
Gefin hefur verið út alþjóðleg handtökuskipun á hendur Mohamed Abrini
Gefin hefur verið út alþjóðleg handtökuskipun á hendur Mohamed Abrini AFP
Frá La Défense
Frá La Défense AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert