Vilja takmarka komu fólks til ESB

Forsætisráðherra Frakklands, Manuel Valls, hvetur Evrópusambandið til þess að takmarka þann fjölda flótta- og förufólks sem fær að komast inn fyrir landamæri bandalagsins.

 „Evrópa verður að lýsa því yfir að hún geti ekki lengur tekið á móti svo mörgum flóttamönnum. Það er ekki möguleiki,“ sagði Valls á fundi með erlendum fjölmiðlum og haft er eftir honum í Suddeutsche Zeitung.

„Eftirlit með ytri landamærum Evrópusambandsins er grundvallaratriði fyrir framtíð ESB. Ef við sinnum því ekki þá mun fólk segja: Evrópa það er nóg komið.“ 

Miklar efasemdir hafa vaknað í kjölfar hryðjuverkaárásarinnar í París um hversu skilvirkt eftirlitið er á ytri landamærum Schengen svæðisins. Á föstudag samþykkti ESB að flýta umbótum á Schengen samstarfinu en þar fóru Frakkar fram á að upplýsingum um flugfarþega verði safnað.

Valls óttast að Ríki íslams eigi eftir að herja á önnur ríki Evrópu, svo sem Þýskaland og Ítalíu. ESB verði að verja sig með því að takast á við flóttamannastrauminn og tryggja að þær milljónir Sýrlendinga sem hafa flúið land fái aðstoð við landamæri Sýrlands í stað þess að fólkið streymi til Evrópu.

„Evrópa verður að finna leið til þess að tryggja að flóttamenn fái aðstoð í nágrannaríkjum Sýrlands. Að öðrum kosti verður óvíst um hvort Evrópa hafi tök á að sinna eftirliti á landamærum sínum,“ segir Valls.

Í gær var gengið frá lagaramma um fjárhagslega aðstoð við Tyrki hjá framkvæmdastjórn ESB vegna þeirra milljóna Sýrlendinga sem eru þar í landi en heimildir AFP fréttastofunnar herma að það gangi illa að finna þá þrjá milljarða evra sem Tyrkir hafa óskað eftir.

AFP
AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert