Lögðu hald á 2,5 tonn af loftsteinum   

Loftsteinar geta verið mikils virði fyrir safnara. Hér má sjá …
Loftsteinar geta verið mikils virði fyrir safnara. Hér má sjá lofstein sem hrapaði í Rússlandi fyrir tveimur árum síðan. memolition.com

Argentínska lögreglan hefur lagt hald á rúmlega 2,5 tonn af loftsteinabrotum, en brotin höfðu verið sett í poka og er talið líklegt að selja hafi átt þau til Evrópu. Eigendur hússins sem brotin fundust í eru hjón sem selja húsgögn, en ekki er enn ljóst hvort þau verði handtekin vegna málsins.

Algengt er að loftsteinabrot finnist á þessu slóðum, en brotin fundust í héraðinu Santiago del Estero í norðuhluta landsins. Skammt undan er svæðið Campo del Cielo þar sem loftsteinadrífa varð fyrir um 4.000 árum.

Samkvæmt argentínskum lögum er bannað að taka eða selja loftsteina eða loftsteinabrot. Hægt er að selja um 20 kíló af slíkum varningi fyrir um 5.000 Bandaríkjadali í Evrópu, eða um 650 þúsund krónur.

Alberto Korovaichuk, bæjarstjóri í bænum Gancedo sem er í nágrenninu, segir að þjófnaður  safnara sé algengur. Þannig komi fjöldi manns yfir nóttina með skóflur og málmleitartæki. Fyrr á þessu ári lagði lögreglan á svæðinu hald á rúmlega 1,5 tonn af sama varningi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert