Trump hæddist að fötluðum blaðamanni

Donald Trump er afar umdeildur.
Donald Trump er afar umdeildur. AFP

Donald Trump hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir að hæðast að fötluðum blaðamanni, sem starfar fyrir bandaríska dagblaðið New York Times.

Trump, sem sækist eftir útnefningu Repúblikanaflokksins sem forsetaefni á næsta ári, hermdi eftir blaðamanninum Serge Kovaleski og var með óviðeigandi látbragð á fjöldafundi í Suður-Karólínu í fyrradag, að því er segir á vef BBC. 

Forsvarsmenn New York Times segja að hegðun Trumps hafi verið svívirðileg. 

Trump hefur notað grein, sem Kovaleski skrifaði árið 2001, til að styðja við mjög umdeildar fullyrðingar að mörg þúsund múslímar hafi fagnað í New Jersey í kjölfar hryðjuverkaárásanna á Bandaríkin 11. september 2001.

Trump sagði á fundinum að Kovaleski væri ágætur blaðamaður en sagði að hann myndi ekki eftir að hafa haldið þessu fram.

„Aumingja náunginn, þið verðið að sjá hann,“ sagði Trump svo. Svo fór hann að veifa höndunum undarlega og var augljóslega að herma eftir blaðamanninum, sem er með vöðva- og taugasjúkdóm sem hefur áhrif á hreyfingar hans. Sérstaklega hefur þetta áhrif á hægri handlegg og hönd hans.

„Uuu, ég man ekki hvað ég sagði. Uuu ég man ekki. Hann segir bara: „Ég man ekkert. Kannski sagði ég þetta“,“ sagði Trump á meðan hann sveiflaði höndunum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert