Alnæmi alvarleg ógn ungmenna

Þrefalt fleiri ungmenni deyja úr alnæmi nú en en fyrir fimmtán árum segir í nýjum tölum frá Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF).

Alnæmi er algengasta dánarorsök ungmenna í Afríku og önnur algengasta dánarorsök ungmenna í heiminum. Í hópi þeirra sem eru með HIV-smit þá sker ungmennahópurinn sig úr þegar kemur að dauðsföllum því í öðrum aldurshópum hefur dánartíðnin lækkað jafnt og þétt.

Á svæðum sunnan Sahara í Afríku þar sem tíðnin er hæst þá eru það einkum stúlkur á aldrinum 15-19 ára sem hafa orðið harðast úti en alnæmi og HIV smit er gríðarlega algengir sjúkdómar meðal þeirra.

Craig McClure, yfirmaður HIV/AIDS málaflokksins hjá UNICEF, segir að það skipti gríðarlegu máli að ungt fólk sem er HIV smitað fái aðgang að meðferðum, læknisþjónustu og stuðning í verki. Á sama tíma er það mikilvægt að þeir sem ekki eru HIV smitaðir séu upplýstir um hvernig þeir geti komið í veg fyrir slíkt smit.

Miklar framfarir hafa átt sér stað í heiminum í baráttunni gegn HIV og alnæmi en samkvæmt upplýsingum frá UNICEF þá hefur dregið mikið úr smiti milli mæðra og barna og áætlað að á fimmtán árum hafi verið komið í veg fyrir að 1,3 milljónir barna smitist af HIV. 

60% færri börn yngri en fjögurra ára deyja nú árlega af völdum alnæmis en árið 2000.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert