Keyptu riffla af þýskum braskara

Lögregla í Þýskalandi.
Lögregla í Þýskalandi. AFP

Talið er að fjórir rifflar sem notaðir voru í hryðjuverkaárásunum í París í Frakklandi fyrr í mánuðinum hafi verið keyptir af braskara í Þýskalandi. Þýska blaðið Bild greinir frá þessu í dag og vísar í gögn frá skrifstofu saksóknara í Stuttgard.

Um er að ræða tvo AK47-riffla og tvo Zastava M70-riffla sem seldir voru hinn 7. nóvember til viðskiptavinar í París. Í blaðinu segir að þeir sem að rannsókn málsins koma í Frakklandi telji að vopnin hafi verið notuð í árásunum.

Greint er frá því að þýska lögreglan hafi handtekið Sascha W., 34 ára karlmann frá borginni Magstadt, hinn 16. nóvember. Er hann grunaður um sölu á ólöglegum vopnum á Darknet, vel földu skugganeti sem fáir hafa aðgang að.

Í fjórum tölvupóstum sem fundust í síma hans segir að hann hafi selt fjóra Kalashnikovs-riffla „til araba í París,“ segir einnig í blaðinu. Lögregla fann sextán önnur skotvop á heimili hans við húsleit.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert