Falið rými í grafhýsi Tutankhamuns?

Með innrauðum skanna og radartækni hafa vísindamenn nær fullvissað sig um að falið rými sé handan norðurveggs grafhýsis Tutankhamuns, konungs Egyptalands hins forna fyrir rúmum 3000 árum. Talið er að þar gæti verið að finna líkamsleifar Nefertiti drottningar, móður hans.

Grafhýsi Tutankhamuns, sem lést aðeins 19 ára gamall eftir 9 ára setu á valdastól, var skannað í bak og fyrir eftir að rannsókn fornleifafræðingsins Nicholas Reeves leiddi líkum að því að Nefertiti væri grafin í aðliggjandi grafhýsi.

Gögnin úr grafhýsinu verða nú færð til Japan þar sem þau verða greind frekar en ráðherra fornleifamála í Egyptalandi, Mamduh al-Damati, sagði sérfræðinga um 90% vissa um að annað rými liggi handan norðurveggs grafhýsisins.

Nefertiti eða Kiya?

Reeves og ráðherrann, Damati, eru þó ekki á einu máli um hver sé grafin handan veggsins. Kenning Reeves er sú að Tutankhamun hafi verið grafinn með flýti eftir að hann lést í grafhýsi sem upphaflega hafi verið ætlað öðrum, þ.e. Nefertiti móður hans, og hans eigin grafhýsi var ekki tilbúið. Damati vill meina að meiri líkur séu á að Kiya, önnur eiginkona Akhenaten konungs og föður Tutankhamuns, sé grafin þar.

Zahi Hawass, fyrrverandi ráðherra fornleifamála í Egyptalandi og sérfræðingur í málaflokknum hefur raunar einnig lýst efasemdum um að Nefertiti sé að finna innar í grafhýsinu. Þekkt er að hún tók þátt í því ásamt Akhenaten konungi að koma á dýrkun á Aten, sólguði, um tíma í Egyptalandi í mikilli óþökk prestastéttarinnar á þeim tíma. „Nefertiti yrði aldrei grafin í dal konunganna. Hún dýrkaði Aton með Akhenaten árum saman. Prestarnir hefðu aldrei leyft henni að greftrast í dal konunganna,“ sagði Hawass við AFP fréttastofuna.

Eftir að betri niðurstöður fást úr skönnuninni verður tekin ákvörðun um framhaldið en ekki hefur enn fundist lausn á því hvernig eigi að komast að rýminu handan veggsins án þess að valda skemmdum á grafhýsinu.

Rýmið sem um ræðir er talið vera á bak við …
Rýmið sem um ræðir er talið vera á bak við myndina í horninu ofarlega vinstra megin á myndinni. AFP
Frá Dal konunganna í Egyptalandi.
Frá Dal konunganna í Egyptalandi. AFP
Líkamsleifar Tutankhamuns.
Líkamsleifar Tutankhamuns. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert