Luc Bondy er látinn

Luc Bondy
Luc Bondy AFP

Luc Bondy, áhrifamikill svissneskur leikstjóri sem hefur stýrt tugum leikhús- og óperuverkum í Evrópu undanfarna fjóra áratugi, lést í dag  67 ára að aldri.

Það var eitt virtasta leikhúsið í París, Theatre de l'Odeon, sem tilkynnti um andlát Bondy en hann starfaði þar. Bondy glímdi við erfið veikindi allt frá 25 ára aldri en lét það aldrei stöðva sig og koma í veg fyrir að hann stýrði sýningum í þekktustu leikhúsum í Evrópu sem og Bandaríkjunum.

Bondy fæddist í Zürich og ólst upp í Sviss og Frakklandi. Hann hóf ferilinn í Þýskalandi en hann stýrði meðal annars Schaubühne leikhúsinu í Berlín og hafði umsjón með hátíðum í Vín og Salzburg. Undanfarin þrjú ár hefur hann starfað í París. Alls hefur hann leikstýrt 60 leikritum og 16 óperum víðsvegar um Evrópu auk Metropolitan í New York.

Bondy leikstýrði mörgum leiksýningum sem voru byggðar á verkum  Shakespeare,Tjékov, Moliere og Marivaux. Eins vöktu óperur sem hann leikstýrði mikla athygli, meðal annars verk Monteverdi, Benjamin Britten, Verdi og Mozart.

Forseti Frakklands François Hollande minntist Bondy í dag og sagði að hann hafi verið menning Evrópu holdi klæddur með lífi sínu og einstöku ævistarfi.

Bondy greindist með krabbamein 25 ára að aldri og allt frá því glímdi hann við erfið veikindi. En hann lét það ekki stöðva sig og árið 2009, þegar hann var mjög alvarlega veikur, þá var komið fyrir sjúkrarúmi fyrir hann við sviðið á óperunni í París svo hann gæti fylgst með æfingum á óperu sem hann leikstýrði.

 Bondy lætur eftir sig eiginkonu, svissneska leikstjórann Marie-Louise Bischofberger og tvíbura.

Luc Bondy
Luc Bondy AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert