Ekkert á sérstöku tilboðsverði

Svartaföstudagstilboð Cards Against Humanity.
Svartaföstudagstilboð Cards Against Humanity. Skjáskot af vef cardsagainsthumanity

Svarti föstudagurinn svokallaði fór trúlega framhjá fáum Íslendingum þetta árið en íslenskar verslanir hafa óðum tileinkað sér sið þeirra vestanhafs um að halda útsölu daginn eftir þakkargjörðarhátíðina. Engar þeirra buðu þó jafn spennandi tilboð og framleiðendur Cards Against Humanity gerðu í gær.

Í gær var vefverslun spilaframleiðandans tekin niður og skipt út fyrir aðeins einn vöruflokk: Ekkert. Á verðinu 5 dollarar stykkið.

Skýrt kom fram að um tímabundið tilboð væri að ræða og að kaupendur væru að borga 5 dollara sem gengju óskiptir til framleiðanda spilsins í skiptum fyrir ekkert.

11.248 manns gengu að tilboðinu og þar af keyptu 1.199 fleiri en eitt ekkert, segir á vefsíðu Cards Against Humanity.

Starfsmenn CAH skiptu með sér ágóðanum og eyddu honum í ýmislegt bráðnauðsynlegt eins og kattasand fyrir 500 dollara, PlayStation 4, Pokemon booster pakka, afborgun af grænum Hyundai Tuscon árgerð 2005, tólf mánaða áskrift að mánaðarlegum óvissupakka frá Japan og fleira auk ýmissa gjafa til góðgerðasamtaka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert