Verða að sanna að konan hafi sagt já

AFP

Menn sem eru sakaðir um nauðgun verða að færa sönnur á að konan hafi sagt já, samkvæmt nýjum viðmiðunarreglum sem dreift verður til allra lögreglustöðva og saksóknara í Bretlandi. Þetta er hluti af áætlun þar í landi til að koma nauðgunarrannsóknum á 21. öldina.

Meðal annars hefur verið fjallað um málið á vef Telegraph. Þetta þýðir að menn sem eru sakaðir um að hafa nauðgað konum á stefnumótum verða að geta sannfært lögreglu um að konan hafi verið samþykk því að stunda kynmök með viðkomandi.

Ríkissaksóknari í Bretlandi segir að það sé orðið tímabært að réttarkerfið gangi lengra en „nei þýðir nei“ í að viðurkenna aðstæður þar sem konur hafi ekki samþykkt kynmök. Alison Saunders ríkissaksóknari segir að fórnarlömb nauðgana eigi ekki lengur að þurfa að þola gagnrýni frá samfélaginu ef viðkomandi er dauðadrukkin eða einfaldlega frýs og getur ekki sagt orð af ótta við árásarmanninn.

Þess í stað á lögregla og saksóknari nú að leggja aukna áherslu á að sá sem er sakaður um nauðgun útskýri hvernig fórnarlambið hafi viljað taka þátt í kynmökunum.

Þessum breytingum er mjög fagnað af þeim sem berjast gegn kynferðisofbeldi í Bretlandi og segja þetta gríðarlega stórt skref í þá átt að koma í veg fyrir að nauðgarar sleppi frá réttvísinni.

Á hverju ári eru um 85 þúsund konur fórnarlömb nauðgana í Bretlandi og í 90% tilvika þekkja þær árásarmanninn. Samkvæmt nýjum tölum eru aðeins 15.670 konur sem kæra nauðgunina þar sem þær telja vonlaust að sanna að þeim hafi verið nauðgað eða þær hafa litla eða enga trú á að lögreglan hjálpi þeim. Aðeins var sakfellt í 1.070 málum af þeim 2.910 sem fóru fyrir dóm í Bretlandi í fyrra.

Frétt Telegraph

AFP
Fjölmargir tóku þátt í mótmælum fyrir utan lögreglustöðina á Hverfisgötu …
Fjölmargir tóku þátt í mótmælum fyrir utan lögreglustöðina á Hverfisgötu nýlega mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert