Forsætisráðherrann stóðst lygapróf

Aleksandar Vucic.
Aleksandar Vucic. AFP

Aleksandar Vucic, forsætisráðherra Serbíu var settur í lygamæli í gær og stóðst hann prófið. Ráðherrann bauðst sjálfur til að gangast undir prófið vegna ásakana sem komið hafa fram í slúðurmiðlum um mútuþægni.

„Forsætisráðherrann átti sjálfur frumkvæði að því að fara í lygamælinn eftir að [blaðið] Kurir birti mjög alvarlegar ásakanir sem ráðherrann hefur hafnað,“ sagði innanríkisráðherrann, Nebojsa Stefanovic, á blaðamannafundi.

Dagblaðið birti í gær innihald skýrslu sem fyrrverandi ritstjóri Kurir, Aleksandar Kornic, sendi ríkissaksóknara. Kornic heldur því fram að annað dagblað, Informer, hafi tekið þátt í mútuþægni og að Vucic kæmi einnig að því máli. 

Vucic fór til lögreglunnar eftir að greinin var birt og bað um að gangast undir lygapróf.

„Lygaprófið sýndi að Vucic var að segja satt,“ sagði innanríkisráðherrann. Hann segir að prófið staðfesti að Vucic átti aldrei fund með Kornic. 

„Þetta sannar að lygarnar gegn forsætisráðherranum eru til þess gerðar að skapa ólgu í landinu og við viljum með öllum ráðum koma í veg fyrir það,“ sagði innanríkisráðherrann. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert