Reyndi að selja „minjagripi“ um MH17

Flugstjórnarklefi flugvélar Malaysian Airlines.
Flugstjórnarklefi flugvélar Malaysian Airlines. AFP

Hollenskur lögreglumaður hefur verið handtekinn eftir að í ljós kom að hann hafði reynt að selja muni á netinu sem sagðir eru koma úr braki malasísku flugvélarinnar sem var skotin niður yfir Úkraínu í fyrra. Ekki liggur fyrir hvort að munirnir sem hann auglýsti til sölu komu raunverulega úr brakinu.

Á meðal þess sem maðurinn auglýsti til sölu voru föt sem hann sagðist hafa klæðst á vettvangi þegar rannsóknarteymi rannsökuðu orsakir þess að flugvélin var skotin niður með rússnesku eldflaug á leið sinni frá Amsterdam til Kuala Lumpur í júlí í fyrra. Flestir farþeganna 298 sem voru um borð voru hollenskir ríkisborgarar. Enginn komst lífs af.

Auk fatnaðarins reyndi lögreglumaðurinn að selja pappírsþurrkur merktar Malaysian Airlines og aðra muni sem hann sagði koma úr braki vélarinnar, þar á meðal brot úr skrokki flugvélarinnar. Lýsti hann mununum sem „veggskreytingu“ og vildi fá 1.500 evrur fyrir þessa minjagripi um flug MH17.

Hann er sakaður um fjárdrátt og er í varðhaldi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert