Schengen „eins og svissneskur ostur“

Götóttur svissneskur ostur.
Götóttur svissneskur ostur. Wikipedia

„Við getum ekki haldið úti Schengen-svæði þar sem ytri landamærin eru eins og svissneskur ostur,“ sagði Guy Verhofstadt, leiðtogi þingflokks frjálslyndra á Evrópuþinginu, í gær í umræðum um stöðu Schengen-svæðisins og svonefndra ytri landamæra þess. Vísaði hann þar til þess að landamæraeftirlit á ytri mörkunum væri víða í lamasessi.

Kallaði Verhofstadt eftir því samkvæmt frétt Euobserver.com að Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, yrði boðið að koma fyrir Evrópuþingið og útskýra hvers vegna hann vilji ekki fallast á að Evrópusambandið sendi landamæralögreglu og strandgæsluskip til þess að koma betri stjórn á ytri landamæri Schengen-svæðisins í Grikklandi.

Eins og mbl.is hefur fjallað um hafa forystumenn innan Evrópusambandsins ítrekað varað Grikki við því í vikunni að taki bæti þeir ekki landamæragæslu sína á ytri landamærum Schengen-svæðisins verði þeir reknir úr samstarfinu. Grískir ráðamenn hafa brugðist við þeim fréttum með því að hafna því að slíkar hótanir hafi borist þeim.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hyggst leggja fram tillögur fyrir áramótin um að sett verði á laggirnar sérstök landamæralögregla auk strandgæsla á vegum sambandsins með það hlutverk að sjá um landamæragæslu á ytri landamærum Schengen-svæðisins. Ísland hefur verið hluti svæðisins frá því að það var sett á laggirnar fyrir tæpum 15 árum síðan.

Guy Verhofstadt.
Guy Verhofstadt. Wikipedia
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert