TISA á skjön við loftslagsmarkmið?

Loftlagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna fer fram í París.
Loftlagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna fer fram í París. AFP

Wikileaks hefur birt ný skjöl um viðræður vegna TISA-samningsins. Alþjóðlegu samtökin PSI, sem hafa greint gögnin, telja  að samningurinn verði  til þess að erfiðara verði fyrir stjórnvöld að fylgja eftir því samkomulagi  sem kann að nást á loftslagsráðstefnunni í París.

Ástæðuna  segir PSI vera þá að með samningnum verði dregið úr yfirráðum ríkja yfir auðlindum og aðgangur alþjóðlegra fyrirtækja að þeim tryggður.

Ísland og Noregur eru sögð helstu fulltingismenn þessara tillagna og telur PSI að Íslendingar kunni að telja samninginn henta stórum orkufyrirtækjum en staðreyndin mun vera sú að alþjóðleg fyrirtæki hagnast mest á honum.

„Á sama tíma og helstu ráðamenn heims reyna að ná alþjóðlegu samkomulagi í París í baráttunni gegn hlýnun jarðar, eru samningamenn þeirra á fundi í Genf þar sem þeir reyna fyrir luktum dyrum að búa til nýtt fríverslunarsamkomulag sem gæti aukið losun gróðurhúsalofttegunda og valdið enn meiri breytingum á loftslagi jarðar,“ segir í fréttatilkynningu frá PSI.

„Þessir 23 samningamenn, Ástralir, Svisslendingar, Bandaríkjamenn og frá Evrópusambandinu, ræða saman um bindandi mál þar sem „rétturinn til að gera greinarmun á sólarorku og kjarnorku, greina vindorku frá kolum, eða jarðhitavinnslu frá bergbroti“, hverfur með því að búa til „tæknilegt hlutleysi“,“ segir í umfjöllun PSI. „Á fundinum í Genf, sem stendur yfir frá 30. nóvember til 4. desember, verður líkast til haldið áfram með umræðuna um það sem  kallast „Umhverfisþjónusta“ en síðast var hún rædd í október.“

„Samningurinn myndi „draga úr yfirráðum ríkja yfir auðlindum sínum með því að skylda ríki til að búa til frjálsan markað fyrir erlenda aðila sem útvega orkutengda þjónustu. Þannig myndi réttur ríkjanna til að tryggja hagnað af auðlindum sínum hverfa á braut,“ segir Victor Menotti,  skýrsluhöfundur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert