Var í tengslum við hryðjuverkamenn

Syed Farook, bandarískur múslími sem skaut fjórtán til bana ásamt eiginkonu sinni, Tashfeen Malik, sem er frá Pakistan, var í tengslum við þekkta hryðjuverkamenn og er talið að hann hafi snúist til öfgahyggju. Lögreglumaður talar um ólýsanlegt blóðblað þegar hann er spurður út í vettvang glæpsins.

Bandaríska alríkislögreglan (FBI) segir of snemmt að tengja parið, sem er á þrítugsaldri, við hryðjuverkastarfsemi en FBI hefur tekið yfir rannsókn á fjöldamorðunum í San Bernardino. Er nú rannsakað hvað fékk þau Farook, 28 ára, og Malik, 27 ára, til þess að skjóta fjórtán til bana og særa 21. 

New York Times segir að FBI rannsaki árásina sem mögulega hryðjuverkaárás en enn sé of snemmt að staðfesta að svo sé. 

CNN greinir frá því að Farook hafi verið í sambandi við þekkta hryðjuverkamenn í öðrum heimsálfum og hafi snúist til öfgaskoðana eftir að hann gekk í hjónaband með Malik í Sádi-Arabíu á síðasta ári. Þrátt fyrir þetta segir leiðtogi múslíma (imam) í moskunni sem Farook sótti að hann hafi ekki sýnt nein merki um öfgaskoðanir. 

Erfitt að skilja þá særðu eftir og halda áfram

Lögreglumaðurinn Mike Madden, sem er einn þeirra sem komu fyrst á vettvang árásarinnar sem var gerð í sal þar sem borgarstarfsmenn héldu jólaskemmtun. Farook var starfsmaður umhverfissviðs borgarinnar og hafði verið í veislunni en yfirgefið hana skömmu fyrir árásina, segir að lík hafi verið út um allt og að þeir hafi þurft að klofa yfir sært fólk til þess að reyna að komast í návígi við morðingjana. Þetta hafi verið ólýsanlegar aðstæður sem mættu þeim.

„Þetta er ólýsanlegt, blóðbaðið sem við sáum,“ sagði Madden á blaðamannafundi, samkvæmt BBC. „Fjöldi fólks var sært og annað því miður látið og það var algjör örvænting meðal þeirra sem þurftu á hjálp að halda.“ 

Hann segir að lögreglan hafi aðstoðað um fimmtíu manns út úr salnum í öruggt skjól. Þeir hafi síðan haldið lengra inn í húsið og það hafi verið erfið ákvörðun - að skilja fólk eftir sem við vissum að var sært og þyrfti á aðstoð að halda, segir Madden.

Sprengjubúnaður, vopn og þúsundir pakkninga með skotum fundust á heimili árásarfólksins. FBI er nú að fara yfir gögn í farsímum og hörðum diskum parsins. Í ljós hefur komið að Farook hafi verið í samskiptum við öfgamenn bæði innanlands sem og utan. 

Hryðjuverk eða vinnustaðadeila?

Forseti Bandaríkjanna, Barack Obama, hefur fyrirskipað að flaggað verði í hálfa stöng við opinberar byggingar næstu daga. Hann hvetur fólk til þess að draga ekki ályktan of fljótt. „Á þessu stigi málsins vitum við ekki hvort um hryðjuverk var að ræða,“ segir Obama sem hefur ítrekað lagt til að Bandaríkjaþing herði löggjöf með byssueign enda slíkar árásir nánast daglegt brauð. 

Í ár hafa alls 462 beðið bana og 1.314 særst í skotárásum í Bandaríkjunum þar sem fjórir eða fleiri voru skotnir til bana eða særðir, að meðtöldum fjórtán manns sem létu lífið í árás í borginni San Bernardino í Kaliforníu í fyrradag. Það sem af er árinu hafa verið gerðar a.m.k. 354 slíkar árásir í um 220 borgum í 47 ríkjum Bandaríkjanna, samkvæmt samantekt vefsetursins shootingtracker.com. Að jafnaði eru því gerðar fleiri en ein árás á dag þar sem að minnsta kosti fjórir láta lífið eða særast.

Það er mögulegt að þetta hafi tengst hryðjuverkum en við vitum það ekki. Það er líka mögulegt að þetta tengist vinnustaðadeilum,“ segir Obama.

En meðal þess sem fær marga til þess að telja að um hryðjuverk sé að ræða er gríðarlegt vopnabúr þeirra sem og ferðalög þeirra til útlandi og ljóst sé að árásin var undirbúin. 

 „Það var greinilegt að um herferð var að ræða,“ segir aðstoðarframkvæmdastjóri FBI í Los Angeles, David Bowdich.

Lögreglustjórinn í San Bernardino, Jarrod Burguan, segir að Farook og eiginkona hans hafi skilið sex mánaða gamla dóttur sína eftir hjá móður Farook skömmu áður en þau skutu 150 skotum í árásinni á gesti jólaskemmtunar borgarstarfsmanna.

„Það reiðist enginn í veislu, fer heim og undirbýr svo margbrotna atburðarrás,“ segir Burguan og vísar þar til þess að Farook hafi komið í veisluna en farið eftir að hafa lent í illdeilum. Stuttu síðar mætti hann á svæðið ásamt Malik eiginkonu sinni og jólaveislan breyttist í vígvöll.

Nokkrar minningarathafnir voru haldnar í San Bernardino í gærkvöldi, þar á meðal í mosku í nágrenninu. „Þetta er hörmulegur atburður en við verðum að sýna að við erum ekki hrædd,“ segir Dorothy Andrews, 74 ára, sem tók þátt í minningarstund ásamt þúsund manns á San Manuel íþróttaleikvanginum.

Hann hafði allt sem þarf til að vera hamingjusamur

Kunningjar Farook segja að þeir hafi aldrei sýnt merki um öfgaskoðanir og upplifði „ameríska drauminn“ með eiginkonu sinni og ungri dóttur. „Hann var kvæntur, hann átti dóttur og á síðasta ári var hann með 77 þúsund Bandaríkjadali (10,3 milljónir króna) í tekjur,“ segir Gasser Shehata sem stundaði sömu mosku og Farook. „Hann hafði allt sem þarf til þess að vera hamingjusamur.“

Annar félagi Farook úr Dar Al Uloom Al Islamiyah moskunni segir að Farook hafi verið vanur að koma til bæna tvisvar til þrisvar í viku en hafði hins vegar ekki komið þangað í þrjár vikur.

Samtök múslíma í Bandaríkjunum óttast afleiðingar árásarinnar og telja að þetta geti aukið hatur á múslímum og að þeir verði allir settir undir sama hatt hvort heldur sem þeir eru friðsamir eða öfgasinnar.

AFP
Dar-Al-Uloom, Al-Islamiyah moskan sem Syed Farook fór í til þess …
Dar-Al-Uloom, Al-Islamiyah moskan sem Syed Farook fór í til þess að biðja. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert