Úr rólegri húsmóður í morðingja

Tashfeen Malik
Tashfeen Malik AFP

Það er ekki mikið vitað um aðdraganda skotárásarinnar í San Bernardino á miðvikudaginn þar sem 14 létu lífið. Það er heldur ekki mikið vitað um annan árásrmanninn, Tashfeen Malik.

Þar til Malik tók þátt í að myrða 14 manns ásamt eiginmanni sínum Sayd Farook lét hún fara lítið fyrir sér. Hún flutti til Bandaríkjanna fyrir tveimur árum eftir að hafa kynnst Farook í Sádi Arabíu. Hún fæddist í Pakistan, talaði bjagaða ensku og bar slæðu fyrir andlit sitt á almannafæri. Hún forðaðist nágranna sína og neitaði að keyra. Aldur Malik er á reiki en yfirvöld segja hana 27 ára gamla en í hjúskaparvottorði hennar er hún 29 ára.

Hún virðist ekki hafa verið virk á samfélagsmiðlum, en rétt fyrir árásina hét hún leiðtoga Ríkis íslams, Abu Bakr al-Baghdadi tryggð sína.

Nam lyfjafræði í Pakistan

Malik og Farook létu lífið í skotbardaga við lögreglu nokkrum klukkustundum eftir árásina. Síðan þá hafa rannsakendur þurft að púsla saman því litla sem þeir vita um hjónin og hvernig þau fóru úr því að vera rólegir foreldrar í það að bera ábyrgð á einni blóðugustu fjöldaskotárás í sögu Bandaríkjanna.

Að sögn bandarísku alríkislögreglunnar, FBI, voru hvorki Malik eða Farook á lista þeirra yfir grunsamlega einstaklinga.

Samkvæmt grein NBC var Malik frá Punjab héraði en hafði búið ásamt fjölskyldu sinni í Sádi Arabíu í mörg ár áður en hún sneri aftur til Pakistan til að læra lyfjafræði. Hún kynntist Farook á netinu. Þau ákváðu að hittast í Sádi Arabíu árið 2013 þegar hann fór til Mekka í Pílagrímsför.

Þau gengu í hjónaband og fluttu til Bandaríkjanna. Malik fékk síðan landvistarleyfi þar til frambúðar í ágúst á síðasta ári.

„Við vorum rétt svo farin að kynnast henni

Í augum fjölskyldu Farook var Malik „eðlileg húsmóðir“ sem tók siði múslima alvarlega. Þegar gestir voru á heimilinu sýndi hún karlmönnum aldrei andlit sitt. Hún var mjúkrödduð og feimin en virtist vera að vera að aðlagast ágætlega í Bandaríkjunum að sögn ættingja Farook.

„Við vorum rétt svo farin að kynnast henni því hún var þögul og feimin eins og eiginmaður hennar,“ sagði Saira Khan, systir Farook í samtali við NBC í dag.

Nágrannar hjónanna höfðu sömu sögu að segja. Einn sagði hana hlédræga konu sem forðaðist augnaráð nágrannanna og var alltaf með slæðu. Eftir að hún var ólétt, bjó hún til gjafalista á vefsíðu verslunarinnar Target, en hann innihélt aðeins fjóra hluti.

Stúlkubarnið fæddist í maí og virtist parið hamingjusamt að sögn Khan. Malik naut móðurhlutverksins og hvorki hún né Farook gáfu til kynna að þau aðhlynntust öfgamenningu eða ofbeldi.

Dóttirin eftir með ömmu sinni

En á einhverjum tímapunkti hófu Malik og Farook að skipuleggja árásina að mati yfirvalda. Söfnuðu þau að sér miklu magni vopna og skotvopna og breyttu bílskúr heimilisins í sprengjuverkstæði.

Á miðvikudagsmorguninn yfirgáfu Malik og Farook heimili sitt. Sex mánaða gömul dóttur þeirra varð eftir í umsjá móður Farook en þau sögðust vera á leið til læknis. Farook fór í jólaboð ásamt samstarfsmönnum sínum en yfirgaf boðið fljótt. Hann kom síðan aftur, þá með Malik. Þau voru bæði með grímur og árásarriffla og hófu skothríð á fólkið. Þau flúðu vettvang árásarinnar í bifreið en skildu eftir sprengju sem sprakk sem betur fer ekki.

Þetta er það sem rannsakendur vita og augljóslega vantar heilmikið í eyðurnar. Að sögn rannsakenda er ekkert sem bendir til þess að hjónin hafi tilheyrt stærri hópi eða verið hluti af samtökum. Ríki íslams hefur ekki lýst yfir ábyrgð á árásinni en fjölmiðill sem tengist samtökunum heldur því fram að þau hafi verið stuðningsmenn þeirra.

Stjórnvöld í Bandaríkjunum, Pakistan og Sádi Arabíu vinna nú saman að því að púsla saman ferðalögum Malik síðustu ár og mögulegum tengslum hennar við hryðjuverkahópa.

Í dag fögnuðu liðsmenn Ríkis íslams í Írak ódæði hjónanna í útvarpsútsendingu. „Við biðjum til Guðs að hann taki á móti þeim sem pílsavottum,“ sagði í yfirlýsingu Ríkis íslams á al-Bayan útvarpsstöðinni.

Frétt NBC um Malik.

Múslimar í Maryland minnast fórnarlambanna.
Múslimar í Maryland minnast fórnarlambanna. AFP
Bifreiðin sem Malik og Farook voru í þegar þau voru …
Bifreiðin sem Malik og Farook voru í þegar þau voru skotin til bana af lögreglu. AFP
Mörgu er ósvarað um ástæður árásarinnar á miðvikudaginn.
Mörgu er ósvarað um ástæður árásarinnar á miðvikudaginn. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert