Bann við árásarrifflum staðfest

Hæstiréttur Bandaríkjanna.
Hæstiréttur Bandaríkjanna. AFP

Hæstiréttur Bandaríkjanna hefur í raun staðfest bann sem eitt úthverfa Chicago lagði við árásarrifflum. Byssueigendur áfrýjuðu banninu alla leið til hæstaréttar en dómararnir níu höfnuðu því að taka málið fyrir.

Bærinn Highland Park í Illinois-ríki lagði bann við hálfsjálfvirkum byssum og stórum skothylkjum árið 2013. Við það vildu byssueigendurnir ekki una og fóru með bannið fyrir dómstóla. Alríkisdómstóll í Illinois komst að þeirri niðurstöðu að svæðisstjórnir hefðu svigrúm til að ákveða reglur um skotvopn.

Í október komst áfrýjunardómstóll í New York að sömu niðurstöðu um sambærileg bönn í Connecticut og  New York en þau eru á meðal örfárra ríkja sem banna hálfsjálfvirk vopn.

Hæstiréttur hefur ítrekað vísað frá málum þar sem aðilar reyna að fá reglum um byssueign hnekkt í kjölfar tveggja fordæmisgefandi dóma sem skáru úr um að bandarískir þegnar hefðu rétt á að eiga skammbyssur til að verja eigin heimili.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert