Hótar að beita neitunarvaldi

Kjörstjórn í Venesúela hefur staðfest niðurstöðu þingkosninga sem fóru fram í landinu nýverið. Þar fór stjórnarandstaðan með sigur af hólmi og fékk tvo þriðju hluta atkvæða.

Nicolas Maduro, forseti landsins, hefur einnig staðfest ósigur sósíalista í kosningunum. 

Í frétt BBC kemur fram að eitt fyrsta verk nýrra valdhafa verði að láta leiðtoga stjórnarandstöðunnar lausa úr fangelsi og vinna bug á efnahagskreppunni í landinu. 

Maduro hefur tilkynnt að breytingar verði gerðar á ríkisstjórn landsins en hann hótar því að beita neitunarvaldi ef lög verða sett um að láta stjórnmálamenn sem sitja í fangelsi lausa.

Niðurstaðan í kosningunum er versta útreið sem sósíalistar hafa fengið allt frá stofnun flokksins árið 1999 undir stjórn Hugo Chavez. Hann var forseti Venesúela frá 1999 og þar til hann lést árið 2013.

Mið- og hægriflokkurinn MUD fékk 99 af 167 sætum á þinginu, samkvæmt opinberum kjörtölum. Flokkurinn stefnir að því að fá lausan einn af leiðtogum flokksins, Leopoldo Lopez, sem var dæmdur í 13 ára fangelsi fyrir að hvetja til ofbeldis. Gagnrýnendur sósíalista segja að hann hafi verið dæmdur vegna pólitískra skoðana sinna. Hann var handtekinn í fyrra ásamt þúsundum annarra í kjölfar mótmæla í landinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert