Ríki íslams hefur grætt 65 milljarða

Þýsk herþota á leið til Sýrlands í baráttunni gegn Ríkis …
Þýsk herþota á leið til Sýrlands í baráttunni gegn Ríkis íslams. AFP

Hryðjuverkasamtökin Ríki íslams hafa þénað yfir 500 milljónir dala, eða um 65 milljarða króna, á olíuviðskiptum. Þetta sagði Adam Szubin, talsmaður bandaríska fjármálaráðuneytisins, við BBC.

Að sögn hans hefur helsti viðskiptavinur Ríkis íslams verið ríkisstjórn Sýrlands, þrátt fyrir baráttu samtakanna við að kollsteypa ríkisstjórninni.

Ríki íslams hefur einnig stolið um einum milljarði dala, eða um 130 milljörðum króna, úr bönkum á svæðum sem samtökin hafa náð á sitt vald.

Undanfarið ár hafa Bandaríkjamenn og bandamenn þeirra varpað sprengjum á skotmörk Ríkis íslams, þar á meðal olíustöðvar, í Sýrlandi og Írak.

Yfirmaður fjármála hjá samtökunum var drepinn í einni slíkri árás, að því er bandaríska varnarmálaráðuneytið tilkynnti um á fimmtudaginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert