„Nú hafa konur rödd“

Kona í borginni Jeddah kýs í fyrsta skipti.
Kona í borginni Jeddah kýs í fyrsta skipti. AFP

Þær þurfa að vera huldar frá toppi til táar að vanda og mega ekki keyra sjálfar á kjörstað en í dag  mega sádi arabískar konur kjósa í fyrsta skipti. Þar að auki máttu konur í fyrsta skipti bjóða sig fram til embættis, sem frambjóðendur í sveitarstjórnir landsins en þær eru einu opinberu embætti landsins sem valið er í með almennri kosningu.

„Nú hafa konur rödd,“ sagði Awateef Marzooq við AFP eftir að hafa kosið í fyrsta skipti í skóla í höfuðborg landsins. „Ég grét. Áður sáum við þetta bara gerast í öðrum löndum í sjónvarpinu.“

Þrátt fyrir að geta valið um konur í fyrsta skipti sagðist Marzooq hafa kosið karlmann vegna hugmynda hans um fleiri ungbarnaleikskóla.

„Ég kaus mann, en ég vona að kona muni vinna,“ sagði hún.

Sádi Arabía var síðasta land heims til þess að veita konum kosningarétt en enn er himin og haf milli almennra réttinda kynjanna þar í landi. Er það deginum ljósara þegar litið er til kjörstaða enda voru þeir kynjaskiptir.

Fyrir utan kjörstað fyrir konur í Riyad beið löng bílaröð þar sem karlkynsbílstjórar komu með kvenkyns kjósendur í síðum svörtum klæðum. Flestar konurnar báðu fjölmiðla um að taka ekki af sér myndir áður en þær voru keyrðar á brott.

Frambjóðandinn Amal Badreldin al-Sawari stendur fyrir utan einn af kjörstöðum …
Frambjóðandinn Amal Badreldin al-Sawari stendur fyrir utan einn af kjörstöðum kvenna. AFP

Ekki í framboði til að vinna

Moahammed al-Shammari, sem var nýbúinn að ferja dóttur sína, kennara, á kjörstað sagðist hafa hvatt hana til þess að kjósa. „Við viljum brjóta niður þessa hindrun,“ sagði hann.

„Svo lengi sem hún á sitt eigið svæði og það er engin samblöndun við karlmenn, hvað kemur þá í veg fyrir að hún kjósi? Við styðjum allt sem brýtur ekki gegn sharia,“ sagði hann.

Yfir 900 konur eru í framboði og keppa við tæplega 6.000 karlmenn um sæti. Þær þurftu þó að komast framhjá ýmsum tálum til að taka þátt í þessum sögulegu kosningum. Kvenkjósendur eru því undir 10 prósentum skráðra kjósenda og talið er að fáir, ef einhverjir kvenframbjóðendur hljóti kosningu.

„Til að segja þér sannleikann er ég ekki í framboði til að vinna,“ sagði Amal Badreldin al-Sawari, 60 ára barnalæknir í Riyadh. „Mér finnst ég hafa unnið með því að bjóða mig fram.“

Einum þriðja af sætunum í hinum 248 sveitarstjórnarráðum Sádi Arabíu er úthlutað af ráðuneyti sveitarstjórnarmála og eru konur bjartsýnar á að þær muni hreppa í það minnsta einhver þeirra.

Frambjóðandinn Aljazi al-Hossaini nýtti sér veraldarvefinn undir 12 daga framboðsherferð sína og setti stefnuyfirlýsingu sína á vefsíðu þar sem bæði konur og karlar gætu séð hana.

„Ég gerði mitt besta og ég gerði allt sjálf,“ sagði hinn 57 ára rekstrarráðgjafi sem býður síg fram á Diriyah svæðinu.

En ekki allar konur reynt hafa að brjóta upp form feðraveldisins í hinu íhaldssama konungsríki hafa átt eins jákvæða reynslu. Þegar kosningabaráttan hófst í síðasta mánuði tilkynntu þrír kvenkyns frambjóðendur að þær hefðu verið sviptar framboðsrétti.

Þeirra á meðal er Loujain Hathloul, sem varði meira en tveimur mánuðum í fangelsi eftir að hafa reynt að keyra inn í konungsríkið frá Sameinuðu Arabísku furstadæmunum síðla á síðasta ári, í máli sem öðlaðist heimsathygli. Áfrýjunardómstóll veitti henni framboðsréttinn að nýju aðeins tveimur dögum áður en kosningabaráttunni lauk.

Brosið virðist svo sannarlega einlægt hjá þessum kjósanda.
Brosið virðist svo sannarlega einlægt hjá þessum kjósanda. mbl.is/AFP

Skortur á upplýsingum

Á kjörstað fyrir karlmenn í miðborg Riyadh, sagði hinn 78 ára gamli Ahmad Soulaybi, að hann vissi ekki nóg um kvenkyns frambjóðendur í sínu umdæmi til að styðja þá.

„Ég kaus karlmann því mig skortir upplýsingar um konurnar,“ sagði hann við AFP.

Samkvæmt upplýsingum frá kjörstjórn eru skráðir kjósendur yfir 18 ára aldri tæp 1,5 milljón, þar á meðal eru 119 þúsund konur en Sádi arabískar konur eru 21 milljón í heildina.

Umhverfi Sáda er nútímalegt á margan hátt þar sem olíuveldið getur stært sig af hraðbrautum, skýjakljúfum og miklum fjölda verslunarkeðja.

Jafnrétti er hinsvegar með því minnsta sem gerist í heiminum þar sem konur þurfa enn leyfi karlkyns fjölskyldumeðlima til að ferðast, vinna eða giftast.

Landinu er stjórnað af al-Saud fjölskyldu Salman konungs. Löggjafinn er ekki kosinn af almenningi og stjórnvöld hafa þurft að þola harða gagnrýni vestursins vegna mannréttindabrota í landinu.

Hæg framþróun í kvenréttindum hófst þegar fyrirrennari Salman, Abdullah, tilkynnti fyrir fjórum árum að konur myndu vera kjörgengar í kosningum þessa árs. Fyrstu sveitastjórnarkosningar landsins fóru fram árið 2005 en þær náðu aðeins til karla.

Kjörstöðum lokar klukkan fimm að staðartíma og talið er á morgun, sunnudag.

Konur í kjörstjórn á einum af kjörstöðum kvenna.
Konur í kjörstjórn á einum af kjörstöðum kvenna. AFP
Kona í Riyadh kýs í fyrsta skipti.
Kona í Riyadh kýs í fyrsta skipti. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert