Þurfa að selja rafdreifikerfið

Frá Aþenu.
Frá Aþenu. AFP

Stjórnvöld í Grikklandi tilkynntu á föstudaginn að þau hefðu náð samkomulagi við alþjóðlega lánadrottna landsins um frekar umbætur í grísku stjórnkerfi og efnahagsmálum gegn gegn frekari lánafyrirgreiðslum upp á einn milljarð evra.

Fram kemur í frétt AFP að skilyrðin fyrir lánveitingunni hafi einkum verið þau að komið yrði á fót sérstökum einkavæðingarsjóði og að raforkudreifingarfyrirtækið Admie yrði selt en ríkið á 51% hlut í félaginu. Gríska þingið greiðir atkvæði um samkomulagið á þriðjudaginn. Helstu lánadrottnar Grikkja eru Evrópusambandið, Evrópski seðlabankinn og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn.

Grikkir samþykktu í júlí þriggja ára lánafyrirgreiðslu upp á 86 milljarða evra til þess að forða því að verða reknir af evrusvæðinu en samkomulaginu fylgja ströng skilyrði. Fyrsta greiðslan barst Grikkjum í ágúst, önnur í nóvember og nú er um að ræða þá þriðju. Í hvert sinn hafa stjórnvöld þurft að hrinda í framkvæmd óvinsælum aðhaldsaðgerðum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert