Tíu bestu tilvitnanirnar

Brugðið á leik í París í dag.
Brugðið á leik í París í dag. AFP

Hér fyrir neðan er að finna samantekt AFP á bestu tilvitnunum hinnar 13 daga loftslagsráðstefnu í París, sem endaði með sögulegu samkomulagi.

Uppskrift að árangri

Aðalsamningamaður Kína, Su Wei, líkti árangursríkum viðræðum við matreiðslu:

„Þegar þú eldar máltíð þarftu krydd, innihaldsefni og uppskriftir. Og í næstu viku fer hin eiginlega eldamennska fram, á eldavélinni í eldhúsinu. Þá upplifir þú aðalsmerki franskrar matreiðslu og bragðið af öllum réttum heimsins.“

Náttúran í öndunarvél

Karl Bretaprins gaf frá sér stríðsöskur við upphaf ráðstefnunnar:

„Náttúran grætur undan misþyrmingu af okkar höndum. Ef plánetan væri sjúklingur hefðum við læknað hana fyrir löngu. Þið hafði vald til að koma henni í öndunarvél og þið verðið að hefja fyrstu hjálp án frekari tafa.“

Of þreytt

Espen Ronneberg, fjármálasamningamaður frá Kyrrahafsríkinu Samoa, útskýrði streituna sem fylgir næturlöngum samningaviðræðum:

„Við erum öll þreytt og verðum mun síður diplómatísk. Í staðinn komum við okkur beint að efninu. Sumir segja ekki einu sinni „halló“, heldur kinka bara kolli.“

Bjargið Tuvalu, bjargið heiminum

Enele Sosene Sopoaga, forsætisráðherra Tuvalu, biðlaði til aðila um að freista þess að takmarka hlýnun við 1,5 gráðu, í stað 2 gráða:

„Öll hitastigsaukning umfram 1,5 gráður mun valda endalokum Tuvalu og annarra lágt-liggjandi eyríkja... ef við björgum Tuvalu þá björgum við heiminum.“

Guð í hæstu hæðum

Kardinálinn Peter K.A. Turkson, meðlimur sendinefndar Vatíkansins, biðlaði til trúaðra samningamanna:

„Hvers vegna þörfnust við Guðs? Ef það eru einhverjir trúarinnar menn hér þá segi ég við þá; við getum ekki sagt að við elskum Guð þegar við elskum ekki það sem Guð hefur skapað. Og hvað skapaði Guð? Guð skapaði jörðina og hinn mennska mann.“

Gott dagsverk í höfn.
Gott dagsverk í höfn. AFP

Heitara en atómsprengja

Al Gore, fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna og Nóbelsverðlaunahafi, vísaði til sprengjunnar sem Bandaríkjamenn vörpuðu á Hiroshima til að lýsa áhrifum gróðurhúsalofttegunda:

„Hinn einfaldi sannleikur er sá að uppsöfnuð loftslagsbreytandi mengun í andrúmsloftinu af manna völdum fangar nú jafn mikla viðbótarvarmaorku í andrúmslofti jarðar eins og myndaðist ef 400.000 atómsprengjur af Hiroshima-stærðargráðu væru sprengdar á jörðinni á hverjum degi. Þetta er stór pláneta en þetta er gríðarlegt magn orku.“

Spennandi tímar

Bandaríski leikarinn Sean Penn sá von í nýrri vegferð fyrir mannkynið:

„Ef til vill er þetta mest spennandi tímabilið í sögu mannkyns. Tálsýn þess að þurfa að taka of margar erfiðar ákvarðanir hefur alltaf skapað glundroða. Nú lifum við á tímum þar sem það er ekki um neitt að velja. Við búum við fullvissu. Dagar drauma hafa vikið fyrir dögum aðgerða.“

Ótrúlegar aðgerðir til að komast af

Anote Tong, forseti Kiribati, talað um fljótandi eyjar, gríðarstóra sjávarveggi og aðrar aðgerðir til að bjarga eyríkinu frá afleiðingum hækkandi sjávarborðs:

„Ég er viss um að þú telur mig brjálaðan, en þetta eru brjáluð staða. Viðburðir af þessu tagi hafa aldrei áður átt sér stað; við erum ríki sem stendur andspænis alvarlegri ógn. Þær aðgerðir sem ég hef verið að hvetja til eru sumpartinn róttækar, en ég fullvissa þig um að þær eru það ekki. Þær eru jafn raunhæfar og við getum gert þær.“

Öryggisógnir

Barack Obama Bandaríkjaforseti, sem var viðstaddur setningu ráðstefnunnar í París, varaði við þeim öryggis- og efnahagsógnum sem loftslagsbreytingar hefðu í för með sér:

„Ef við leyfum jörðinni að hlýna á þessum hraða, og sjávarborðinu að hækka eins og það hefur gert, og ef veðurfar breytist á óútreiknanlegan hátt, þá munum við brátt þurfa að verja auknu fjármagni og auknum herafla ekki til að fjölga tækifærum fólks heldur í að laga okkur að ýmsum afleiðingum breyttrar plánetu.“

Hver sópar gólfið?

Hinn suður-afríski samningamaður Nozipho Mxakato-Diseko gerði gys að fyrstu drögum að samkomulaginu, sem kváðu á um að öll ríki „sem væru í aðstöðu til þess“ myndu aðstoða við fjármögnun á þróun endurnýjanlegra orkugjafa:

„Í fjölskyldunni minni segi ég við börnin: „Þú þrífur þetta og þetta. Þú þrífur herbergið.“ Ég segi ekki að „.einhver muni þrífa herbergið“. Ég segi: „Þú, Jón, þrífur herbergið. Þú, Gréta, vaskar upp.“ Það er ekkert „einhver í þeirri stöðu að geta sópað gólfið gerir það“. Einhver þarf að vera ábyrgur og ég þarf að vita að gólfið verður þrifið.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert