Meirihlutinn styður hnífaárásir

Mikill meirihluti Palestínumanna styður hnífaárásir sem gerðar hafa verið ítrekað að undanförnu á Ísraela eða 2/3 þeirra samkvæmt niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar sem birtar voru í dag. Þetta kemur fram í frétt AFP. Sama hlutfall styður vopnaða uppreisn gegn Ísrael. Það þjónaði hagsmunum betur en samningaviðræður. 

Hins vegar sögðust tæp 75% andvíg því að ungar stúlkur tækju þátt í hnífaárásum. Fram kemur í fréttinni að frá 1. október hafi átt sér stað nær daglegar árásir Palestínumanna á Ísraelsmenn og átök þar á milli sem kostað hafi 117 Palestínumenn, 17 Ísraelsmenn, Bandaríkjamann og Eriterumann lífið. Margir Palestínumannanna voru meintir árásarmenn og stór hluti þeirra ungt fólk. Þar á meðal unglingar. Aðrir hafa látið lífið í átökum við ísraelskar öryggissveitir.

Könnunin var gerð af stofnuninni Palestinian Center for Policy and Survey Research og náði til 1.270 manns. Einnig kom fram í niðurstöðum hennar að aðeins 45% styðja tveggja ríkja leiðina svonefnda. Þá vilja 65% að Mahmud Abbas, forseti heimastjórnar Palestínumanna, segi af sér. Samkvæmt könnuninni myndi hann tapa fyrir Hamas-samtökunum. Kjörtímabili Abbas lauk árið 2009 en kosningum hefur verið frestað síðan vegna deilna á milli heimastjórnar Palestínumanna á Vesturbakkanum og Hamas sem ræður ríkjum á Gaza-ströndinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert