Svíar gera skilríki að skilyrði

Eyrarsundsbrúin.
Eyrarsundsbrúin. Wikipedia

Sænska þingið hefur samþykkt umdeilt lagafrumvarp um að könnuð verði skilríki allra þeirra sem ferðast með lestum og rútum yfir Eyrarsundsbrúna frá Danmörku og með ferjum m.a. frá Þýskalandi. Samtals greiddu 175 þingmenn atkvæði með samþykkt frumvarpsins, 39 voru andvígir þeim og 117 sátu hjá. Lögin taka gildi 21. desember en koma til framkvæmda 4. janúar.

Samkvæmt lögunum verður fyrirtækjunum sem reka samgöngumannvirki og -farartæki gert að framfylgja efturlitinu. Stéttarfélög hafa gagnrýnt það að félagsmönnum þeirra verði gert að sinna störfum sem þau telja að hið opinbera eigi að sjá um. Gert er ráð fyrir að fyrirkomulagið gildi í þrjú ár samkvæmt fréttavefnum Thelocal.se.

Hægri- og miðjuflokkar sátu hjá en breytingatillaga þeirra um að miðað yrði við sex mánuði náði ekki fram að ganga. Miðflokkurinn og Vinstriflokkurinn greiddu atkvæði gegn lagafrumvarpinu. Frumvarpið var hins vegar samþykkt með atkvæðum Jafnaðarmanna og Græningja, sem standa að baki núverandi minnihlutastjórn, og atkvæðum Svíþjóðardemókrata.

„Við munum ekki geta staðið við alþjóðlegar sáttmála um réttinn til hælis með þessu frumvarpi. Þetta er gríðarlega alvarlegt. Við erum að leggja til lokun landamæra innan Evrópusambandsins,“ sagði Torbjörn Björlund, þingmaður Vinstriflokksins, meðal annars í umræðum í sænska þinginu um málið. 

Ennfremur segir í fréttinni að nokkrir þingmenn Græningja hafi fyrir atkvæðagreiðsluna gagnrýnt lagafrumvarpið en þegar upp var staðið hafi aðeins einn þeirra greitt atkvæði gegn því og annar setið hjá. Þá hafi einn þingmaður jafnaðarmanna einnig setið hjá.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert