Verkefni á arabísku vekur heift

Verkefnið var æfing í skrautskrift.
Verkefnið var æfing í skrautskrift. Mynd/Antonio Litterio af Wikipedia

Skólar í Augusta-sýslu í Virginiu í Bandaríkjunum voru lokaðir í dag og hátíðartónleikar og íþróttaviðburðir um helgina felldir niður í kjölfar heiftarlegra viðbragða vegna skólaverkefnis þar sem nemendur sem voru að læra skrautskrift voru látnir rita arabísku.

Samkvæmt skólayfirvöldum bárust engar nákvæmar hótanir en þeim var brugðið vegna fjölda og orðalagi kvartana. Sumar bárust utan Viginiu. Af þessum sökum var öryggisgæsla við skólana efld á fimmtudag.

Gætt hefur vaxandi reiði eftir að kennari við Riverheads menntaskólann setti nemendum sínum verkefni í skrautskrift sem fól í sér að skrifa setningu á arabísku: „Það er enginn Guð nema Allah og Múhameð er spámaður hans.“

Á fundi í gær lýstu margir foreldrar hneykslan og reiði og fóru sumir fram á að kennaranum, Cheryl LaPorte, yrði sagt upp störfum. LaPorte hefur ekki viljað tjá sig um málið en 2.000 manns hafa lýst yfir stuðningi við hana á Facebook.

Meðal námsefnisins sem kennarinn studdist við voru einnig verkefni þar sem önnur trúarbrögð komu við sögu. Samkvæmt skólayfirvöldum var tilgangur þessa tiltekna verkefnis að sýna nemendum fram á hversu flókin arabíska væri.

Þau segja að í framtíðinni verði annar arabískur texti notaður.

Ítarlega frétt um málið er að finna hjá Guardian.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert