Hafna hjónabandi samkynja para

Kjörseðill á kjörstað í Bled.
Kjörseðill á kjörstað í Bled. AFP

Þegar 96% atkvæða hafa verið talin er ljóst að Slóvenar hafa hafnað því í þjóðaratkvæðagreiðslu að heimila samkynja pörum að giftast. 63,21% þeirra sem kusu sögðu nei, en um er að ræða uppreisn gegn lögum sem þegar höfðu verið samþykkt.

Frétt mbl.is: Slóvenar kjósa um hjónabönd samkynja para

Kosningaþátttaka var fremur dræm, 35,65%, en til þess að úrslitin væru gild þurftu 20% kosningabærra manna að styðja þá niðurstöðu sem yrði ofan á. Nei-liðar þurftu alls 342.000 atkvæði til að fella lögin úr gildi og fengu samtals 370.000.

Það sem fór helst fyrir brjóstið á þeim sem söfnuðu 40.000 undirskriftum til að knýja fram þjóðaratkvæðagreiðslu var að lögin tryggðu samkynja pörum ekki bara réttinn til að ganga í hjónaband heldur einnig til að ættleiða börn.

Forseti landsins og forsætisráðherrann voru báðir hlynntir því að heimila hjónabönd samkynja para, en gildistöku laga þar að lútandi var frestað í mars sl. þegar ljóst varð að gengið yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu um málið.

Nú þegar henni er lokið og úrslit liggja fyrir, er ljóst að löggjöfinn verður óbreytt en hún skilgreinir hjónaband sem samband manns og konu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert