Tugir manna fórust í óveðri

Börn nota ísskáp sem bát í heimabæ sínum sem er …
Börn nota ísskáp sem bát í heimabæ sínum sem er einn þeirra sem liggja enn undir vatni eftir óveður sem gekk yfir Filippseyjar í síðustu viku. AFP

Fjöldi bæja liggur enn undir vatni á Filippseyjum eftir að tveir stórir stormar gengu yfir í síðustu viku. Vitað er til þess að minnsta kosti 45 manns hafi farist af völdum þeirra en áfram hefur haldið að rigna í norðanverðum eyjunum.

Fellibylurinn Melor og hitabeltislægðin Onyok gengu yfir Filippseyjar með skömmu millibili í síðustu viku. Allt að þriggja metra há flóð hafa gengið yfir sum svæði nærri ám norðan við höfuðborgina Manila.

Fleiri en 54.000 manns hafa hafst við í neyðarskýlum og bendir fátt til þess að fólk komist til síns heima fyrir jól. Lík þeirra sem fórust í hamförunum í vikunni hafa enn verið að finnast í dag.

Um það bil tuttugu fellibylir ganga yfir Filippseyjar á hverju ári og verður mannskaði í mörgum þeirra. Árið 2013 fórust um 7.350 manns þegar fellibylurinn Haiyan gereyddi heilu fiskiþorpunum með veðurofsa sínum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert