Neituðu að fjarlægjast kristna farþega

Samtökin hafa áður gert mannskæðar árásir á rútur í landinu.
Samtökin hafa áður gert mannskæðar árásir á rútur í landinu. AFP

„Drepið okkur öll eða látið okkur vera,“ sögðu múslimar í rútu sem varð fyrir árás hryðjuverkamanna í Kenía í dag. Í frétt BBC kemur fram að árásarmennirnir, sem taldir eru tilheyra hryðjuverkasamtökunum al-Shabab, hafi krafist þess að múslimar aðskildu sig frá kristnum farþegum rútunnar. Farþegarnir neituðu aftur á móti að verða við því.

Sömu kröfu gerðu meðlimir samtakanna í árás á Garissa-háskólann í apríl, þar sem 148 voru myrtir. Slepptu árásarmennirnir þá fjölmörgum múslimum, en tóku kristna nemendur til hliðar og skutu.

Minnst tveir voru myrtir í árásinni í dag, en rútan var á leið frá höfuðborginni Naíróbí til bæjarins Mandera. 36 féllu í valinn í sambærilegri árás um síðustu jól, en þá var ráðist á rútu á leið til Naíróbí og þeir farþegar sem ekki voru íslamstrúar myrtir. Meðlimir al-Shabab hafa framið fjölmörg ódæðisverk í Kenía frá árinu 2011, þegar hersveitir landsins hófu að herja á vígi samtakanna í Sómalíu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert