Samþykkja umdeildar breytingar

Þingmenn PiS fagna eftir atkvæðagreiðsluna í neðri deildinni á þriðjudag.
Þingmenn PiS fagna eftir atkvæðagreiðsluna í neðri deildinni á þriðjudag. AFP

Efri deild pólska þingsins samþykkti í dag umeildar umbætur á æðsta dómstól landsins. Breytingarnar hafa verið harðlega gagnrýndar heima fyrir og þá hefur Evrópusambandið varað við að þær gætu grafið undan réttarríkinu.

Umrætt lagafrumvarp, sem varðar stjórnarskrárdómstól landsins, var ýtt í gegn af þingmönnum á hægri vængnum. Neðri deildin samþykkti lögin á þriðjudag og nú þarfnast þau aðeins undirritunar forseta til að taka gildi.

Forsetinn, Andrzej Duda, nýtur stuðnings hægriflokksins Lög og réttlæti (PiS) en 58 þingmenn flokksins greiddu atkvæði með frumvarpinu í efri deildinni. 28 þingmenn greiddu atkvæði á móti og einn sat hjá.

Talsmaður Duda sagði á Twitter í dag að forsetinn myndi taka ákvörðun um undirritun innan 21 dags. Hann tjáði sig ekki um beiðni utanríkisráðuneytis landsins, sem sagðist í yfirlýsingu hafa óskað eftir áliti Feneyjarnefndarinnar á breytingunum.

Stjórnarandstæðingar segja lögin tilraun til að grafa undan sjálfstæði stjórnarskrárdómstólsins og hafa sakað PiS um að vilja ná yfirráðum innan hans og koma í veg fyrir að hann veiti stjórnvöldum mikilvægt aðhald.

Duda útnefndi fjóra nýja dómara við dómstólinn fyrr í þessum mánuði.

Samkvæmt nýju lögunum verða tveir þriðjuhlutar dómenda við dómstólinn að samþykkja niðurstöður hans og 13 af 15 verða að vera viðstaddir málflutning í stað 9 af 15.

Þá er sá tími sem þarf að líða milli þess að máli er skotið til dómstólsins og dómur er kveðinn upp lengdur í þrjá til sex mánuði í stað tveggja vikna.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur hvatt til þess að lögin taki ekki gildi fyrr en öllum spurningum um áhrif þeirra og afleiðingar hefur verið svarað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert