Ber Breivik vitni í íþróttasal?

Anders Behring Breivik myrti 77 manns í skotárás í Útey …
Anders Behring Breivik myrti 77 manns í skotárás í Útey og í sprenguárás í Osló. AFP

Lagt hefur verið til að mál Anders Breivik gegn norska ríkinu verði flutt í íþróttasal fangelsisins þar sem honum er haldið. Frá þessu greinir TheLocal.no

Breivik, sem myrti 77 manns þann 22 júlí 2011 hefur höfðað mál á hendur norska ríkinu en hann telur sig verða fyrir mannréttindabrotum í Skien fangelsinu. Lögmenn hins opinbera hafa lagt til þennan óvenjulega stað fyrir réttarhöldin þar sem „eðlileg“ málsmeðferð væri ekki möguleg í dómssal í Osló. Lögmaður Breivik, Øystein Storrvik, hefur fallist á tillöguna og segir hana virðast raunhæfasta möguleikan á því að málið fái eðlilega framvindu.

Fyrri tillögur sneru m.a. að því að Breivik myndi bera vitni í gegnum myndbandsstreymi en því var hafnað.

„Aðalpunktur okkar er að dómarinn hitti hann og að aðstæður fangelsunar hans séu í miðpunkti – ekki mótmælin í Osló,“ sagði Storrvik um málið.

Ósk hins opinbera um að réttarhöldin fari fram utan höfuðborgarinnar byggir bæði á áhyggjum af öryggi og á fjárhagslegum grunni. Vísar TheLocal í NRK sem segir fjögurra daga réttarhöld í Osló myndu kosta ríkið 1,8 milljónir norskra króna þar sem nokkrir tugir lögreglu- eða hermanna þyrftu að standa vörð innan sem utan dómshússins.

Meðal þess sem Breivik heldur fram er að hann njóti ónógs ferðafrelsis og of lítilla samskipta við annað fólk. Hann sakar fangelsið einnig um að ritskoða bréfaskipti hans og segir aðstæður þar jafnast á við pyntingar.

Lokaniðurstaða um hvar dómsmálið verður flutt er tekin af héraðsdómi Osló.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert