Enginn á topp Everest í ár

Slasaður fjallgöngumaður fluttur á börum í grunnbúðum Everest eftir snjóflóðin …
Slasaður fjallgöngumaður fluttur á börum í grunnbúðum Everest eftir snjóflóðin í apríl. AFP

Árið 2015 er fyrsta árið frá 1974 þar sem engin kemst á hæsta tind Everest. Fjallgöngumenn lögðu á fjallið bæði í vor og í haust en gríðarlegur jarðskjálfti í Nepal olli miklum snjóflóðum í apríl með tilheyrandi manntjóni.

Tveir Íslendingar, Ingólfur Ragnar Axelsson og Vilborg Arna Gissurardóttir voru í fjallinu þegar jarðskjálfinn varð en þetta var annað árið í röð þar sem þau þurftu að hætta við leiðangra sína vegna hörmunga í fjallinu.

Í haust þurfti japanski fjallgöngumaðurinn Nobukazu Kuriki frá að hverfa vegna veðurs eftir að hafa misst níu fingur í fyrstu tilraun sinni við tindinn árið 2012. Enginn ferð á tindinn var áætluð eftir för Kuriki og nú er ljóst að í fyrsta skipti í 41 ár mun enginn ná á toppinn á þessu ári.

„Gerði mitt besta en áttaði mig á því að ég myndi ekki snúa til baka á lífi ef ég færi lengra vegna sterkra vinda og mik­ill­ar snjó­komu,“ tísti Kuriki í kjölfar tilraunar sinnar.

Í umfjöllun GearJunkie um fámennið á Everest er því velt upp að hugsanlega þurfti þessi hæsti tindur heims örlitla pásu. Hinsvegar muni mannlegur metnaður og óskin um að sigrast á honum trompa ótta og varfærni þegar klifurleyfi hefst fyrir vorvertíðina 2016.

Ríkisstjórn Nepal virðist þó vera að taka ákveðin skref til að koma í veg fyrir frekari hörmungar. Í september tilkynnti ferðamannaráðuneyti landsins að verið væri að íhuga nýjar reglugerðir sem myndu koma í veg fyrir að óreyndir klifurkappar leggðu á tindinn með því að meina þeim að kaupa leyfi.

Tillögur ráðnuneytisins miða að því að banna öllum þeim sem skortir reynslu yfir 6.500 metrum að klífa fjallið. Þá yrði fólki undir 18 ára, yfir 75 ára og fólki einnig bannað að klífa. Markmiðið væri þannig að gera Everest öruggara með því að leyfa aðeins vönum klifurköppum í góðu formi að klífa upp á topp.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert