Obama og Merkel eins og „olía og vatn“

Repúblikanar hafa hamrað á tölvupósthneykslinu í forkosningunum vestanhafs.
Repúblikanar hafa hamrað á tölvupósthneykslinu í forkosningunum vestanhafs. AFP

Angela Merkel var á móti „Obama fyrirbærinu“ og þótti það ganga þvert gegn hugmyndum sínum um pólitík. Þetta kemur fram í tölvupóstsamskiptum Hillary Clinton frá því hún gegndi starfi utanríkisráðherra Bandaríkjanna.

Hinn 30. september 2009 sendi Sidney Blumenthal, fyrrverandi starfsmaður Hvíta hússins og trúnaðarvinur Clinton-hjónanna, minnisblað til forsetaframbjóðandans þar sem hann hvetur hana m.a. til að rækta persónulegt samband við Merkel. Segir hann að kanslarinn kunni ekki við „andrúmsloftið“ umhverfis „Obama fyrirbærið“.

Erindi Blumenthal til Clinton er meðal 5.500 blaðsíðna af tölvupóstsamskiptum Clinton sem utanríkisráðuneytið opinberaði í gær. Að sögn talsmanna ráðuneytisins voru 275 tölvupóstar nýlega úrskurðaðir leynilegir að hluta.

Clinton hefur verið gagnrýnd af repúblikönum fyrir að hafa notað einkapóstþjón fyrir tölvupóstsamskipti sín þegar hún gegndi embætti utanríkisráðherra, en ráðuneytið viðurkenndi að það myndi ekki ná að uppfylla þá fyrirskipun að birta 82% af tölvupóstum ráðherrans fyrrverandi fyrir árslok 2015.

Í tölvupóstsamskiptunum hafði Blumenthal eftir John Kornblum, fyrrverandi sendiherra Bandaríkjanna í Þýskalandi, að Obama og Merkel væru eins og olía og vatn, og sagði um bresk stjórnmál að Tony Blair, fyrrverandi forsætisráðherra Breta, teldi að hann hefði sigrað í þingkosningunum 2010 ef hann hefði setið áfram í embætti í stað Gordon Brown.

Þess má til gamans geta að árið 2010 sendi Clinton aðstoðarmanni sínum tölvupóst og bað um útskýringu á skammstöfuninni FUBAR. Svarið: „Fucked up beyond all repair.“

Ítarlega frétt um málið er að finna hjá Guardian.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert