Ráðherrar fá að berjast gegn ESB

David Cameron
David Cameron AFP

Breskum ráðherrum verður heimilað að taka þátt í opinberri umræðu um veru Bretlands í Evrópusambandinu í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslu um málið og beita sér bæði fyrir því að Bretar verði áfram í sambandinu og gegn því.

Þetta kemur fram á fréttavef breska ríkisútvarpsins BBC í dag en heimildin tekur gildi þegar samkomulag liggur fyrir á milli breskra stjórnvalda og Evrópusambandsins um breytingar á veru Breta í sambandinu. David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, er sagður hafa tekið ákvörðun um þetta en mikil umræða hefur skapast um málið. Varað hafði verið við því að ef Cameron fyrirskipaði ráðherrum sínum að styðja áframhaldandi veru í Evrópusambandinu gæti það orðið til þess að hann yrði að reka ráðherra sem væru andvígir því.

Fram kemur í frétt BBC að Cameron muni tilkynna um ákvörðunina opinberlega síðar. Þjóðaratkvæðið er fyrirhugað fyrir árslok 2017 en margir búast við því að það fari fram á þessu ári. Kosið verður á milli áframhaldandi veru í Evrópusambandinu á breyttum forsendum eða og þess að yfirgefa sambandið. Cameron hyggst berjast fyrir fyrri kostinum en skili viðræðurnar við Evrópusambandið ekki ásættanlegum árangri að hans mati hefur hann ekki útilokað að beita sér fyrir því að Bretar segi skilið við sambandið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert