Vissirðu þetta um Eyrarsundsbrú?

Brúin yfir Eyrarsund er stórt og mikið mannvirki.
Brúin yfir Eyrarsund er stórt og mikið mannvirki. AFP

Eyrarsundsbrúin, sem tengir saman Svíþjóð og Danmörku, hefur verið í umræðunni undanfarið eftir að Svíar ákváðu að herða landamæraeftirlit á milli landanna.

Enn sem komið er geta menn ekið óhindrað á einkabílum yfir brúna án þess að þurfa að sýna skilríki en hugsanlega á það eftir að breytast. Allir lestar- og rútufarþegar sem ætla yfir brúna þurfa aftur á móti að sýna skilríki.

Frétt mbl.is: Svíar gera skilríki að skilyrði

Segja má að Eyrarsundsbrú hafi fyrst orðið heimsfræg með auknum vinsældum sjónvarpsþáttanna Brúin þar sem sænskir og danskir lögreglumenn starfa saman við að leysa sakamál. Þættirnir hófu göngu sína árið 2011 og hafa verið sýndir í yfir 100 löndum.

Brúin er eins konar kennileiti þáttanna og þykir mörgum sjónvarpsáhorfendum vafalítið frekar vænt um hana af þeim sökum.

Sjónvarpsþættirnir Brúin hafa notið mikilla vinsælda.
Sjónvarpsþættirnir Brúin hafa notið mikilla vinsælda.

Eyrarsundbrú er ekki bara vegabrú. Þessi 16 kílómetra leið yfir Eyrarsund, þar sem veðrið getur oft verið slæmt, samanstendur af 3,5 km löngum jarðgöngum frá Kastrup út í tilbúna eyju, Peberholm, sem er fjögurra km löng. Þar tekur við brúin, 7,8 km, á tveimur hæðum, yfir til Málmeyjar.

Með göngunum og eyjunni var stórt vandamál leyst. Danir höfðu haldið því fram að brú sem væri nógu há til að hleypa skipum í gegn myndi skapa hættu vegna þeirra flugvéla sem lenda á Kastrup-flugvelli, sem er í grenndinni. En ef brúin yrði of lág kæmust skip ekki þangað í gegn.

Fólk er beðið um að sýna skilríki á lestarstöð Kastrup-flugvallar.
Fólk er beðið um að sýna skilríki á lestarstöð Kastrup-flugvallar. AFP

Framkvæmdin kostaði um 570 milljarða íslenskra króna og tók hún fimm ár. Brúin opnaði í júní 2000 og styttir hún leiðina á milli Kaupmannahafnar og sænsku borganna Malmö og Lundar um rúman hálftíma með lest. Um tíu mínútur tekur að aka yfir brúna.

Um 20 þúsund manns fara yfir brúna á hverjum degi. „Útsýnið er verulega gott,“ sagði Spyros Sofos, kennari við háskólann í Lundi, sem ferðast daglega þar yfir, í samtali við fréttavef BBC. „Maður sér vindmyllur í fjarlægð þegar maður ferðast þangað yfir og á kvöldin sér maður borgarljósin. Þú sérð líka vel hversu mikið mannvirki þetta er. Brúin sést vel frá ströndinni í Malmö. Það er ekki hægt að horfa fram hjá slíku mannvirki, hvort sem maður lítur á stærðina eða hönnunina sjálfa.“

Lögreglumaður skoðar skilríki rútufarþega.
Lögreglumaður skoðar skilríki rútufarþega. AFP


Að sögn Sofos bætir hið herta landamæraeftirlit að minnsta kosti hálftíma við ferðalag hans með lest á milli Danmerkur og Svíþjóðar vegna þessa að landamæraverðir stíga um borð skömmu eftir að komið er til Svíþjóðar til að skoða skilríki fólks. „Ég hef séð þegar fólk hefur verið handtekið. Áður en þetta eftirlit hófst gekk ferðalagið yfir Eyrarsund hnökralaust fyrir sig,“ sagði hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert