Vill barnið sitt aftur frá New York

Manhattan.
Manhattan. AFP

Bresk lögreglukona hefur nú hafið dómsmál í New York þar sem hún fer fram á að hún fái barnið sitt til baka en barnið var afhent fósturmóður eftir að það var skilið eitt eftir á hótelherbergi.

Hin 42 ára Louise Fielden flaug til Manhattan í apríl með son sinn Samuel sem nú er 14 mánaða. Vorfrí Fielden breyttist hinsvegar í martröð þegar hótelstarfsmenn tilkynntu hana til barnaverndaryfirvalda fyrir að skilja Samuel einan eftir í herbergi þeirra.

Fielden var kærð fyrir að stefna velferð barnsins í hættu, fyrir að vera ósamvinnuþýð við handtöku og fyrir að hafa undir höndum lyfseðilsskyld lyf sem í ljós kom að var kódein sem hún hafði fengið uppáskrifað vegna brjóskloss.

Ákærunum var vísað frá á mánudaginn og nú fer hún fram á að fá son sinn aftur til Englands. Í kæru Fielden sakar hún borgina um að halda barninu án hennar leyfis og ólöglega í Bandaríkjunum

Sem „heittrúaður og íhaldssamur meðlimur bresku biskupakirkjunnar,“ telur hún einnig að fósturmóðir barnsins, Susan Sena, sé óviðeigandi umsjáraðili þar sem Sena er baráttukona fyrir málefnum hinsegin fólks.

Fielden segir ótrúlegt að fósturmóðir sonar hennar, sem hún segir ganga undir gælunafninu „Hækjudrottning“ hafi tekið þátt í klámbingó-veislu þar sem samkynhneigð klámstjarna var heiðursgesturinn.

Dómari í fjölskyldurétti hefur hinsvegar lagt nálgunarbann á Fielden sem hefur því farið fram á að Samuel verði settur í umsjón frændfólks hennar í Englandi á meðan hún áfrýjar dómnum. Segist Fielden hafa neyðst til að fljúga aftur til Bretlands á þriðjudag og mæta til vinnu enda eigi hún nú heilt fjall af reikningum að borga vegna dómsmálsins.

Faðir Samuel er nafnlaus sæðisgjafi frá Hollandi. Drengurinn fæddist í október 2014 og Fielden tók sér tólf mánaða fæðingarorlof. Í janúar flugu mæðginin til eyja í Karabíahafi þar sem þau áttu þriggja mánaða frí saman og í apríl héldu þau þaðan til New York þar sem þau áttu herbergi á Chelsea Highline Hótelinu. Fielden segist hafa skilið barnið eftir sofandi í ferðarúmi í um 30 mínútur á meðan hún fór niður að þrífa vatnsflöskuna hans.

Starfsfólk hótelsins segir hana einnig hafa geymt barnið á gólfinu, um 30 sentímetra frá sér, á meðan hún borðaði morgunmat.

„Í minni menningu er ekki talið hættulegt að setja barn í vöggu,“ segir Fielden í dómsskölunum. „Ég vildi ekki halda á bikar með heitu vatni í einni hendi og frauðplastsmáli í hinni og bera Samuel á sama tíma vegna ótta við að hann myndi brenna sig á heitu vatninu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert