31 handtekinn í Köln

Gjörningarlistamaðurinn Milo Moire sést hér á torginu þar sem árásirnar …
Gjörningarlistamaðurinn Milo Moire sést hér á torginu þar sem árásirnar voru gerðar: Á skilti hennar stendur í lauslegri þýðingu: Virðið okkur við erum ekki leikföng þrátt fyrir að við séum naktar. AFP

Lögreglan í Köln hefur handtekið 31 grunaðan um aðild að árásum í borginni á nýársnótt. Af þeim eru 18 hælisleitendur, segir í tilkynningu sem var að berast frá stjórnvöldum í Þýskalandi.

Af þessum 31 grunuðu mönnum eru átján með stöðu hælisleitenda, segir talsmaður innanríkisráðuneytisins,TobiasPlate. SamkvæmtAFP fréttastofunni segir hann að í flestum tilvikum hafi verið um þjófnað og líkamsmeiðingar að ræða. Í þremur málum hefur verið lögð fram kæra um kynferðislegt ofbeldi en þeir árásarmenn eru enn óþekktir. 

Dómkirkjan í Köln
Dómkirkjan í Köln AFP

Alls hefur verið lögð fram 121 kæra í Köln og 70 í Hamborg um ofbeldi á nýársnótt.

Samkvæmt BBC hefur lögreglu einnig verið tilkynnt um kynferðisofbeldi í borgum í Finnlandi, Austurríki og Sviss á nýársnótt. 

AFP

Á sama tíma eru fjórir ungir Sýrlendingar í haldi grunaðir um að hafa tekið þátt í hópnauðgun á tveimur unglingsstúlkum í bænum Weil am Rhein sömu nótt, segir í frétt BBC sem vísar þar til frétta í þýskum fjölmiðlum.

Eru af átta þjóðernum

Í tilkynningu innanríkisráðuneytisins kemur fram að þeir sem voru handteknir eru af nokkrum þjóðernum. Níu Alsírbúar, átta Marokkóar, fjórir Sýrlendingar, tveir Þjóðverjar, fimm Íranar, einn Íraki, einn Serbi og einn Bandaríkjamaður. 

Fórnarlömbin hafa mörg hver talað um að mennirnir sem réðust á þau hafi verið af norðurafrískum eða arabískum uppruna og hefur þetta vakið upp harðar deilur meðal Þjóðverja hvernig það gangi að samlaga þá rúmlega milljón hælisleitendur þýsku samfélagi.

Hælisleitandi semAFP fréttastofan ræddi við,AsimVllaznim, sem kemur fráKósóvó, segir að þegar hann frétti af árásunum á nýársnótt og að talið væri að flótta- eða farandfólk hafi verið þar að verki, þá hafi honum brugðið mjög. 

Lögreglan sést hér handtaka mann í Köln á nýársnótt.
Lögreglan sést hér handtaka mann í Köln á nýársnótt. AFP

„Fyrstu viðbrögð okkar voru: nú munu Þjóðverjar hata okkur,“ segir Vllaznim sem er 32 ára gamall í viðtali við AFP en hann dvelur ásamt fjölskyldu sinni í flóttamannaskýli í Köln.

Þjóðverjum er eðlilega brugðið við fréttir af kynferðislegu ofbeldi, ofbeldi af öðru tagi, þjófnuðum og tveimur nauðgunum, í borgunum Köln og Hamborg á nýársnótt. 

Fórnarlömbin hafa lýst því hvernig hópur ungra drukkinna karla hafi króað þau af og ráðist á þau. 

Það er mikill viðbúnaður hjá lögreglu í Köln og víðar …
Það er mikill viðbúnaður hjá lögreglu í Köln og víðar í Þýskalandi. AFP

Flótta- og farandfólk óttast afleiðingarnar

Vllaznim óttast að útlendingahatur fái byr undir báða vængi við þetta og segir að þetta sé aðeins upphafið sem þegar hafi komið fram hjá andstæðingum stefnu Angelu Merkel, kanslara, að taka á móti flóttafólki með opnum örmum.

„Þetta er til skammar hvað þeir gerðu á aðalbrautarstöðinni,“ segir Vllaznim sem er fimm barna faðir. En ofbeldið átti sér stað á torgi sem er á milli brautarstöðvarinnar og dómkirkju borgarinnar.

„Það á að senda ódæðismennina í fangelsi,“ segir hann og segist vonast til þess að það hafi ekki verið áfengið sem hafi fengið unga flóttamenn til þess að fremja illvirkin. 

Lögreglan liggur undir ámæli

Lögreglan í Köln liggur einnig undir ámæli fyrir að hafa ekki staðið sig sem skyldi og komið fyrir árásirnar og síðan reynt að villa um fyrir fólki með því að láta eins og málið sé ekki eins alvarlegt og raun ber vitni. 

AFP

Margir borgarbúar í Köln eru gripnir ótta en alls búa 600 þúsund í borginni sem tók á móti 10 þúsund flóttamönnum í desember. Frá því á nýársdag hafa lögreglubílar verið staðsettir fyrir utan aðalbrautarstöðina en í byrjun næsta mánaðar verður haldin kjötkveðjuhátíð sem laðar fleiri hundruð þúsund gesti til Kölnar. 

„Það væri gott ef maður vissi hverjir frömdu ódæðin svo hægt væri að handtaka þá og senda þá til heimalandsins, sama frá hvaða landi þeir eru,“ segir Rute Graca, íbúi í Köln. 

GhaithAnthipan, tvítugur Sýrlendingur sem stóð fyrir utan dómkirkjuna í Köln í morgun með spjald sem á stóð á bjagaðri þýsku: „Það sem gerðist fyrir konur í Köln á nýársnótt er skelfilegt“.

AFP

Þorir ekki út eftir myrkur

Bosnísk kona sem býr í skýli fyrir farandfólk segir að illvirkjar finnist í öllum menningarsamfélögum.  „Ekki setja alla flóttamenn undir sama hatt,“ segir konan sem býr ásamt tveimur dætrum sínum í skýli sem ætlað var að hýsa 550 manns en hýsir nú 623 hælisleitendur. Hún segist vera múslími og að árásir af hálfu útlendingahatara undanfarna mánuði í Þýskalandi hafi orðið til þess að hún þori ekki lengur að ganga með slæðu um höfuðið. Hún þori heldur ekki út eftir að skyggja fer. Hún segist hins vegar skilja hræðslu Þjóðverja eftir árásirnar á nýársnótt. 

Abdul Baldeh, 28 ára frá Gíneu, segir að viðhorf Þjóðverja gagnvart flótta- og farandfólki hafi breyst síðustu mánuði.

„Við komum ekki hingað til að valda vandræðum. Það sem ég vil er að læra þýsku, fá vinnu og öðlast frelsi.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert