20 látnir í árás í Búrkína Fasó

Rauða merkið sýnir borgina Ouagadougou.
Rauða merkið sýnir borgina Ouagadougou. Kort/Google Maps

Árásarmenn hafa myrt „nokkra“ á veitingastað í Ouagadougou, höfuðborg Búrkína Fasó. AFP hefur eftir starfsmanni veitingastaðarins að árásarmennirnir hafist við á fjögurra stjörnu hóteli andspænis veitingastaðnum.

Staðurinn heitir Cappuccino og starfsmaðurinn sagðist í gegnum síma ekki getað gefið upp nákvæman fjölda látinna. Lögreglumaður var skotinn er hann reyndi að fara inn á Splendid-hótelið.

Það heyrast enn byssuhvellir á vettvangi. Hryðjuverkasamtök tengd Al-Kaída eru sögð hafa lýst árásinni á hendur sér.

Uppfært kl. 23.58:

Samtökin AQIM hafa lýst hinni yfirstandandi árás á hendur sér samkvæmt Guardian. Öryggissveitir berjast nú gegn árásarmönnum og það hafa heyrst skothvellir og sprengingar á vettvangi.

Að sögn vitna gerðu byssumennirnir áhlaup á hið fjögurra hæða Splendid, kveiktu í bifreiðum fyrir utan og hleyptu af skotvopnum til að hrekja fólk á brott, áður en öryggissveitir mættu á staðinn.

Eitt vitni sagðist í samtali við AP að hann hefði séð fjóra menn láta til skarar skríða á hótelinu og Cappuccino Cafe um kl. 7.30 að staðartíma. Annað vitni sagði að þegar öryggissveitirnar komu fyrst á vettvang, hefðu þær hörfað í stað þess að ráðast strax gegn árásarmönnum.

Yfirvöld hafa lagt á útgöngubann, að sögn sendiherra Frakklands í Búrkína Fasó. Hann tísti að árásin stæði enn yfir og að sendiráðið sett saman neyðarteymi fyrir franska ríkisborgara. Talið er að fleiri en 3,500 Frakkar búi í landinu. Þeim skilaboðum hafði áður verið komið á framfæri að fólk ætti að halda sig heima fyrir.

Splendid hýsir stundum franska hermenn úr Operation Barkhane, sem er staðsett í Tjad og hefur það hlutverk að berjast gegn íslamistum í Sahel.

Uppfært kl. 00.11:

Það eru „fórnarlömb og gíslar“ í yfirstandandi árás í Ouagadougou, að sögn Alpha Barry utanríkisráðherra Burkína Fasó. Verið er að undirbúa gagnárás, mögulega með liðsinni franskra hermanna.

Stjórnandi sjúkrahúss í borginni segir að minnsta kosti 20 látna.

AFP sagði frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert