Hver er þessi Bernie Sanders?

Bernie Sanders er 74 ára gamall.
Bernie Sanders er 74 ára gamall. AFP

Hann kallar sig „lýðræðislegan sósíalista“ og hefur verið á þingi fyrir Vermont ríki Bandaríkjanna í rúmlega tuttugu ár. Hann er mjög vinstrisinnaður en var óháður þingmaður þangað til á síðasta ári þegar hann gekk til liðs við Demókrata.

Nú virðist sem hinn 74 ára gamli Bernie Sanders sé að saxa á forskot Hillary Clinton, fyrrum utanríkisráðherra Bandaríkjanna, í kapphlaupinu að Hvíta húsinu, en þau berjast bæði um að vera kosin forsetaefni Demókrata í forsetakosningunum í nóvember. Aðeins eru tæpar tvær vikur í fyrstu forvalskosningarnar og er Sanders með 38,3% atkvæða en Clinton 51%. En hver er þessi Sanders og hverjar eru skoðanir hans á helstu deilumálum Bandaríkjamanna?

Sanders ásamt sínum helsta keppinaut, Hillary Clinton.
Sanders ásamt sínum helsta keppinaut, Hillary Clinton. AFP

Yrði sá elsti til að taka við embættinu

Bernie Sanders fæddist í New York borg 8. september 1941 sem gerir hann eins og fyrr segir 74 ára gamlan. Ef Sanders verður kosinn forseti yrði hann elsti forseti til að taka við embættinu. Sá elsti nú er Ronald Reagan en hann var 69 ára gamall þegar hann tók við embættinu.

Faðir Sanders var innflytjandi frá Póllandi en fjölskylda hans lést í Helförinni. Móðir Sanders fæddist í New York en foreldrar hennar voru gyðingar sem höfðu flutt til Bandaríkjanna frá Evrópu. Sanders hefur sagst hafa fengið ungur áhuga á stjórnmálum. „Maður sem heitir Adolf Hitler vann kosningar árið 1932. Hann var kosinn og 50 milljónir manna dóu í kjölfarið í Seinni heimstyrjöld, þar af 6 milljónir gyðinga. Það sem ég lærði sem krakki er að stjórnmál eru mjög mikilvæg,“ sagði Sanders í viðtali á síðasta ári.

Talsmaður mannréttinda

Sanders hóf nám við háskólann í Chicago árið 1960 og þar gekk hann til liðs við hreyfingu ungra sósíalista í borginni. Hann var öflugur stuðningsmaður mannréttinda og skipulagði fjölmörg mótmælti og fjöldafundi í borginni. Í janúar 1962 stjórnaði hann mótmælum fyrir utan stjórnunarbyggingu háskólans þar sem því var mótmælt að svartir og hvítir væru ekki hýstir í sömu húsum skólans. „Okkur finnst það óbærileg staða að svartir og hvítir nemendur geti ekki búið saman í íbúðum í eigu skólans,“ sagði Sanders við mótmælin.

Sanders útskrifaðist árið 1964 með gráðu í stjórnmálafræði. Hann sinnti ýmsum störfum í New York og Vermont næstu árin og árið 1971 hóf hann feril sinn í stjórnmálum þegar hann gekk til liðs við Frelsisflokkinn svokallaða sem samanstóð aðallega af hernaðarandstæðingum og sósíalistum. Hann bauð sig fram sem ríkisstjóra Vermont fyrir flokkinn árin 1972 og 1976 og á þing 1972 og 1974 án árangurs. Hann dró sig úr flokknum árið 1979.

Borgarstjóri í átta ár

Árið 1981 bauð Sanders sig fram sem borgarstjóra Burlington borgar í Vermont og sigraði þáverandi borgarstjóra sem hafði sinnt starfinu í sex kjörtímabil. Sanders var endurkjörinn þrisvar, 1983, 1985 og 1987.

Sanders stóð sig vel í starfinu og árið 1987 var hann valinn einn af bestu borgarstjórum Bandaríkjanna af U.S. News. Hann ákvað að sækjast ekki eftir endurkjöri árið 1989 og kenndi stuttlega við Harvard og Hamilton háskólana árið 1991.

Eins og fyrr segir hefur Sanders verið öldungadeildarþingmaður í meira en 20 ár en það var ekki fyrr en á síðasta ári sem hann gekk til liðs við Demókrata. Áður hafði hann verið óháður þingmaður.

Vill ókeypis háskólamenntun

Sanders legg­ur áherslu á stétta­bar­áttu, bar­áttu gegn mis­skipt­ingu og kúg­un. Hann hefur talað gegn því að hinir ríku verði ríkari og segir bilið milli miðstéttarinnar og hinnar ríku aldrei verið meira. Þá er hann hlynntur því að háskólamenntun í Bandaríkjunum verði ókeypis og hefur sagt það skelfilegt hversu skuldugir Bandaríkjamenn eru vegna menntunar sinnar. Hann hefur einnig kallað eftir nýju sjúkratryggingakerfi og vill minnka kostnað á lyfseðilsskyldum lyfjum. Hann vill einnig að betur sé tekið á móti innflytjendum í Bandaríkjunum.

Sanders mætir í þinghúsið til að hlusta á State of …
Sanders mætir í þinghúsið til að hlusta á State of the Union ræðu Barack Obama í síðustu viku. AFP

Kaus gegn Íraksstríðinu

Sanders er mikill hernaðarandstæðingur og kaus hann gegn stríðinu á þinginu. Sanders hefur sagt Íraksstríðið hafa verið ein verstu mistök í utanríkisstefnu Bandaríkjanna.

Þá finnst honum að ríki múslíma eigi að leiða baráttuna gegn hryðjuverkasamtökum eins og Ríki íslams og Bandaríkin ættu aðeins að taka þátt sem hluti af alþjóðlegri hreyfingu. Hann hefur einnig sagst ætla að loka fangelsinu við Guantanamo flóa verði hann kosinn.

Vill „hittast í miðjunni“ í byssulöggjöfinni

Skoðanir hans á byssueign Bandaríkjamanna hafa vakið athygli en þar sem Sanders er þingmaður Vermont, þar sem byssueign er nokkuð algeng, hefur hann yfirleitt lýst yfir frekar hófsömum skoðunum á málaflokknum. Á meðan helsti andstæðingur Sanders, Hillary Clinton, hefur kallað eftir því að löggjöfin verði verulega hert í ljósi fjölda skotárása í landinu, er Sanders frekar á bremsunni og hefur sagst geta látið fólk „hittast í miðjunni“ þegar það kemur að skotvopnum.

„Fólkið í mínu ríki skilur, að ég held nokkuð vel, að byssur í Vermont eru ekki það sama og byssur í Chicago eða í Los Angeles. Í okkar ríki eru byssur notaðar til þess að veiða. Í Chicago eru þær notaður af krökkum í gengjum sem drepa önnur börn eða til þess að skjóta lögreglumenn,“ sagði Sanders í samtali við CNN. Sagði hann þá jafnframt að það þurfi skynsamlega umræðu í Bandaríkjunum um byssueign og að hann gæti spilað mikilvægt hlutverk í henni.

Stuðningsmaður Bernie Sanders.
Stuðningsmaður Bernie Sanders. AFP

Umhverfissinni á móti dauðarefsingum

Sanders er á móti dauðarefsingum og segir það ekki hlutverk ríkisins „í lýðræðislegu, siðmenntuðu samfélagi, að tengjast morðum á öðrum Bandaríkjamönnum“. Sanders segist einnig vera mikill umhverfissinni og hefur mótmælt lagningu Keystone XL olíuleiðslunnar. Hann hefur einnig lagt til að skattur verði lagður kolefnislosun og að skattaívilnun jarðeldsneytis fyrirtækja verði tekin úr gildi.

Forkosningar Demókrata hefjast í Iowa 1. febrúar næstkomandi. Kjördagarnir eru nítján talsins og eru síðustu kosningarnar í Washington D.C. 14 júní.

Verður Sanders næsti forseti Bandaríkjanna?
Verður Sanders næsti forseti Bandaríkjanna? AFP

Heimasíða Bernie Sanders. 

Umfjöllun NYT um kosningarnar. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert