Ógiftur í dánarvottorðinu

AFP

Enskur maður hefur leitað á náðir bresku ríkisstjórnarinnar eftir að honum var tjáð að í dánarvottorði eiginmanns hans myndi vera skráð að hann hefði aldrei gifst.

David Bulmer-Rizzi lést á laugardag eftir að hafa fallið niður stiga og höfuðkúpubrotnað á heimili vinar en hann og eiginmaður hans, Marco Bulmer-Rizzi, voru í brúðkaupsferð í Suður-Ástralíu.

Ástralía hefur ekki lögfest heimild fyrir hjónaböndum fólks af sama kyni en í einhverjum ríkjum landsins eru hjónabönd þeirra viðurkennd, það er ef viðkomandi hafa gengið í hjónaband erlendis, en ekki í Suður-Ástralíu.

Fjallað er um málið í Guardian í dag og þar kemur fram að ekklinum hafi verið tjáð að í dánarvottorðinu yrði skráð að eiginmaður hans hefði aldrei gengið í hjónaband og hann yrði ekki viðurkenndur sem nánasti aðstandandi. 

Allur undirbúningur fyrir útför Davids verður að vera í höndum föður hans, Nigel Bulmer, sem flaug strax til Ástralíu eftir slysið. 

Marco Bulmer-Rizzi segir í viðtali við BuzzFeed að í augum ástralskra yfirvala sé hann ekkert. Mennirnir bjuggu saman í Sunderland og gengu í hjónaband í London í júní í fyrra. Þeir komu til Ástralíu seint í desember en um brúðkaupsferð var að ræða. 

Frétt Guardian

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert