Sakar Obama um að hafa brugðist hermönnum

Sarah Palin segir að stjórn Obama hafi ekki haldið nægjanlega …
Sarah Palin segir að stjórn Obama hafi ekki haldið nægjanlega vel utan um hermenn, en sonur hennar var nýlega handtekinn fyrir heimilisofbeldi. JONATHAN ERNST

Sonur Söruh Palin, Track Palin, var á dögunum handtekinn fyrir heimilisofbeldi eftir að hafa lent í átökum við unnustu sína. Track Palin, sem er fyrrverandi hermaður í Írak, var vopnaður riffli og hótaði því meðal annars að hann myndi skjóta sig.

Unnusta Palins óskaði eftir aðstoð neyðarlínunnar og lýsti því yfir að Palin hefði slegið hana í andlitið. Þá lýsti hún því einnig yfir að hann hefði beint byssu að henni og haft í hótunum.

Í gærkvöldi kom Sarah Palin, sem er mikill stuðningsmaður vopnaeignar Bandaríkjamanna, fram á ræðufundi þar sem hún tjáði sig um málið. Palin lýsti nýlega yfir stuðningi með Donald Trump sem sækist eftir tilnefningu Repúblikanaflokksins til forsetaframboðs. 

„Ég get talað um þetta á persónulegum nótum vegna þess sem sonur minn, fyrrverandi hermaður sem barðist í stríðinu fyrir ykkur öll, er að ganga í gegnum. Sonur minn, líkt og margir aðrir, kom breyttur til baka.“

Palin sagði jafnframt að sonur hennar þjáist af áfallastreituröskun eftir dvölina í Írak. Þá sakaði hún stjórn Obama um að bera ekki nægilega virðingu fyrir hermönnum sem snúa aftur til Bandaríkjanna eftir dvöl á vígvellinum.

„Spurning þessara hermanna er, veit hann hvað við höfum gengið í gegnum? Veit hann hvað við höfum reynt að gera til að tryggja frelsi Bandaríkjanna?“

„Það fær mig til að átta mig á því, meir en nokkru sinni fyrr, hversu mikilvægt það er fyrir hermennina okkar að hafa mann við stjórnvölinn sem mun bera virðingu fyrir þeim og heiðra þá.“

Brot úr ræðu Palin má sjá hér að neðan.

Frétt mbl.is: Sonur Palin handtekinn fyrir heimilisofbeldi

 

Track Palin elsti sonur Sarah Palin
Track Palin elsti sonur Sarah Palin AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert