Hægrimaður sigurstranglegastur í Portúgal

Útlit er fyrir að sjónvarpsstjarnan og lögfræðiprófessorinn Marcelo Rebelo de Sousa verði næsti forseti Portúgals en kjósendur í landinu ganga til kjörkassanna í dag og á morgun. 

De Sousa hefur frá árinu 2000 verið vinsæll álitsgjafi í portúgölsku sjónvarpi, þekktur undir nafninu Prófessor Marcelo. Hann hefur einnig komið að stofnun dagblaðs í landinu auk þess sem hann kom að stofnun mið-hægri flokks Sósíaldemókrata. Nýjustu skoðanakannanir benda til þess að hann gæti fengið yfir 50% atkvæða sem mundi þýða að hann ynni kosningarnar í fyrri umferðinni. Nái enginn þeirra tíu sem bjóða sig fram 50% mun fara fram önnur umferð hinn 14. febrúar.

„Ég kaus Marcelo. Ég hef séð hann í sjónvarpinu í mörg ár og veit hvar hann stendur í pólitík,“ segir Mario Machado 72 ára eftirlaunaþegi í samtali við The Guardian

Forsetastóllinn í landinu er talinn valdalítill. Sósíalistaflokkurinn í landinu situr nú í ríkisstjórn en þarf að reiða sig á flokka langt til vinstri til þess að halda meirihluta eftir að þingkosningarnar í landinu í október síðastliðnum sköpuðu erfiða stöðu á þinginu. Talið er að forsetinn gæti haft úrslitaáhrif um það hvort ríkisstjórnin haldi velli eða ekki. Mið-hægriflokkur landsins, sem hafði verið við völd frá árinu 2011, fékk flest þingsæti í síðustu kosningum en missti meirihlutann og tókst ekki að mynda ríkisstjórn.

„Fólk elskar Marcelo vegna þess að hann er skemmtilegur,“ útskýrir Vitor Matos, ævisöguhöfundur de Sousa, í samtali við The Guardian.

Marcelo Rebelo de Sousa greiðir atkvæði í dag.
Marcelo Rebelo de Sousa greiðir atkvæði í dag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert