Hvað gerist þegar drottningin deyr?

Elísabet II Englandsdrottning.
Elísabet II Englandsdrottning. AFP

Elísabet II. Englandsdrottning mun ekki lifa að eilífu. Þetta fullyrðir Business Insider í samantekt sinni um það sem gerist þegar drottningin deyr. Elísabet tók við völdum árið 1952 og hefur setið af sér tólf breska forsætisráðherra og jafnmarga Bandaríkjaforseta.

Hún verður níræð í ár og virðist ekki hafa snefil af áhuga á því að setjast í helgan stein. Enn gæti verið langt í dauða Elísabetar og í því samhengi má nefna að móðir hennar varð 101 árs. Af úttekt miðilsins er hinsvegar ljóst að þegar það gerist mun það hafa víðtækar afleiðingar, ekki síst fyrir efahag landsins.

Engir gamanþættir og breyttur þjóðsöngur

Í það minnsta 12 daga milli andlátsins, jarðarfararinnar og þeirra daga sem fylgja mun Bretland liggja í dvala sem kosta mun efnahag landsins milljarða punda. Verðbréfamarkaðir og bankar verða lokaðir um óákveðinn tíma og bæði jarðarförin og krýning nýs þjóðhöfðingja, sem óhjákvæmilega fylgir, verða þjóðhátíðardagar og Business Insider segir neikvæð áhrif þeirra á verga þjóðarframleiðslu vera metna á milli 1,2 milljarða punda og 6 milljarða punda, fyrir utan allan þann kostnað sem fer í skipulagningu slíkra viðburða.

Segir BI þó að efnahagsleg áhrifin ein og sér nái ekki utan um það mikla umfang áhrifa sem þessi eini dauðdagi muni hafa, þau verði ólík nokkru sem Bretland hefur upplifað áður. Sum áhrifin verða minniháttar, t.a.m mun BBC ekki sýna neina gamanþætti meðan á sorgartímanum stendur, Karl Bretaprins kann að skipta um nafn og texti þjóðsöngsins mun breytast.

Andlát Díönu prinsessu og drottningarmóðurinnar voru bresku þjóðinni mikið sorgarefni en sökum langlífis drottningarinnar og stöðu hennar sem þjóðhöfðingja munu sorgarviðbrögðin færast á nýtt stig. Meirihluti bresku þjóðarinnar hefur enda aldrei þurft að lifa án drottningarinnar og mun tímabilið því einkennast af óvissu.

AFP

Fyrstu klukkutímarnir

Ýmislegt veltur á því hvernig drottningin skilur við þennan heim. Ef hún hefur verið lengi veik verður nákvæmri aðgerðaáætlun um hvernig andlátið er tilkynnt hrundið af stað. Áætlunin er nú þegar í bígerð. Í Buckingham-höll eru áætlanir er varða andlát hennar hátignar og krýninguna sem fylgir þekktar sem „brúin“.

Ef andlátið ber skjótt og óvænt að, eða gerist á almannafæri eins og raunin var þegar Díana prinsessa lét lífið árið 1997, munu fréttirnar berast samstundis á ófyrirséðan hátt án þess að starfsfólk hirðarinnar fái nokkru stjórnað.

Hvernig sem fer segir Business Insider ljóst að meirihluti starfsfólks hallarinnar og annarra stofnana verður sendur heim samstundis. Hirðin hefur sérstaka símalínu til starfsmanna þar sem fréttum og leiðbeiningum til starfsmanna er dreift þegar áþekkir viðburðir eiga sér stað.

Ef búist er við andlátinu munu fréttirnar fyrst berast til helstu sjónvarpsstöðva landsins. Allar rásir BBC munu stöðva dagskrá sína og sýna útsendingu BBC1 af tilkynningunni. Aðrar stöðvar eru ekki skyldugar til að gera hlé á hefðbundinni dagskrá en það þykir liggja fyrir að fátt annað verður í stöðunni.

Svona tilkynnti BBC andlát drottningarmóðurinnar árið 2002:

Fréttamenn BBC æfa sig reglulega fyrir dauðsfall þjóðhöfðingjans svo þeir séu undir það búnir, enda aldrei að vita hver verður á vakt þegar kallið kemur.

Augu heimsins verða á útsendingu ríkismiðilsins en fréttamaðurinn Peter Sissons var t.d. harðlega gagnrýndur fyrir að klæðast rauðu bindi þegar hann tilkynnti andlát drottningarmóðurinnar. Í framhaldinu kom BBC sér upp lager af svörtum bindum og jakkafötum sem eru ávallt til reiðu. Þá þurfa fréttamenn í myndveri að taka þátt í æfingum þar sem þeir þurfa skyndilega að tilkynna ýmsar „stórfréttir“ sem eru síðan aldrei sendar út.

Engir gamanþættir vikum saman

Þegar faðir Elísabetar lést árið 1952 hætti BBC við allar sýningar á skemmtiefni yfir ákveðið sorgartímabil sem lýst var yfir í landinu eftir að tilkynnt var um andlátið. Samkvæmt The Daily Mail hyggst BBC gera slíkt hið sama þegar Elísabet skilur við og geyma öll gamanmál fram yfir jarðarförina.

Business Insider segir CNN eiga tilbúna útsendingar-„pakka“ um líf drottnignarinnar sem hægt er að senda út með aðeins augnabliksfyrirvara og líklegt má telja að það sama gildi um aðrar stórar fréttastöðvar.

Kauphöllinni í Lundúnum verður líklega lokað, komi tilkynningin á vinnutíma, og það sama gildir um ýmis önnur fyrirtæki.  Opinberar stofnanir munu fylgja reglum sem menningar- fjölmiðla- og íþróttaráðuneyti landsins setur en hugsanlega munu reglurnar þó berast ráðuneytinu frá höllinni sjálfri.

Utan við opinberar yfirlýsingar um sorg og samkennd er hinsvegar erfitt að segja fyrir um viðbrögð hins opinbera að sögn Business Insider enda geta þær hefðir sem áttu við árið 1952 verið orðnar úreltar í dag.

Konungsfjölskyldan á svölum Buckingham hallar.
Konungsfjölskyldan á svölum Buckingham hallar. AFP

Hvað sem gerist formlega mun áfallið á dánardeginum gera það að verkum að Bretland mun standa í stað. Jarðarfarardagurinn, um tveimur vikum síðar, verður rauður dagur þar sem þjóðin fær frí en landið verður heltekið af sorg allt þar til eftir að hún er yfirstaðin.

Sökum þýðingar drottningarinnar á alþjóðavísu mun fregnin af andláti hennar að öllum líkindum vera helsta frétt daganna sem fylgja um heim allan. Breska heimsveldið náði yfir einn fjórða flæmis heimsins þegar það var upp á sitt stærsta og segir Business Insider að í stutta stund megi búast við afturhvarfs til þeirrar heimsmyndar.

Öllum félagslegum viðburðum á vegum sendiráða og ræðisskrifstofa Bretlands verður aflýst. Þjóðfánanum verður flaggað í hálfa stöng og opinberir starfsmenn erlendis munu taka þátt í sorgarferlinu heima fyrir, m.a. með því að klæðast viðeigandi fatnaði. Bækur fyrir samúðarkveðjur verða lagðar út svo gestir geti sýnt bresku þjóðinni og konungsfjölskyldunni samhug.

Fjöldi fólks fylgist með vaktaskiptum við Buckingham höll.
Fjöldi fólks fylgist með vaktaskiptum við Buckingham höll. AFP

Bakvið luktar hallardyr

Þegar meirihluti starfsfólksins er farinn og búið er að loka opinberum ferðamannastöðum í og við höllina er arftakaráðið kallað saman í Höll St. James til að lýsa því formlega yfir hver arftaki Elísabetar verður, en allt útlit er fyrir að það verði Karl krónprins. Arftakaráðið verður m.a. skipað ráðgjafanefnd krúnunnar, lávörðum, borgarstjóra Lundúna og sendiherrum ákveðinna ríkja innan breska samveldisins.

Tilnefning arftakaráðsins er þó ekki nauðsynleg formlega séð. Karl mun taka við um leið og móðir hans deyr þar sem aldrei getur verið „enginn“ þjóðhöfðingi. Hinsvegar þarf ekki að vera að hann verði „Karl konungur“ því honum er frjálst að velja að bera millinöfn sín fremur. Sem Karl Filippus Artúr Georg gæti hann því orðið Filippus konungur, Artúr konungur eða Georg konungur.

Sá möguleiki að Karl verði aldrei krýndur er títt ræddur í fjölmiðlum. Hugmyndin byggist á því að „hoppað“ verði yfir hann, t.a.m. sökum aldurs, og Vilhjálmur prins verði konungur í hans stað.

Þetta segir Business Insider að muni ekki verða. Vilhjálmur prins hafi sagt að á því sé enginn möguleiki heldur muni hann taka við af Karli sem krónprinsinn af Wales.

AFP

Líkvaka og fjölsótt jarðarför

Líkkista drottningar og lík hennar verður undirbúið til að liggja frammi í Westminster Hall svo almenningur geti vottað virðingu sína. Áður en til þess kemur verður þingið hinsvegar kallað saman og þingmönnum boðið að sverja hollustu sína við hinn nýja þjóðhöfðingja. Allir þingmenn verða raunar að sverja eiðinn sem er 500 ára gamall en samkvæmt Business Insider tíðkast það þó að þingmenn krossleggi fingur á meðan, séu þeir ekki konungssinnar. Eftir það verður þingi slitið þar til útförin hefur farin fram.

Í Westminster verður stutt athöfn þegar líkkistunni er komið fyrir en salurinn verður opinn almenningi í 23 tíma á dag. Þegar drottningarmóðirin var lögð fram í þrjá daga leystu karlkyns barnabörn hennar af heiðursverði sem stóðu yfir henni af í stutta stund í því sem kallað var „líkvaka prinsanna“. Svipuð uppákoma átti sér stað þegar Georg V. lést og þó svo að þessi athöfn sé ekki formleg hefð er líklegt að hún muni einnig fara fram í einhverri mynd við andlát Elísabetar. Yfir 200 þúsund manns vottuðu drottningarmóðurinni virðingu sína á sínum tíma en fullljóst er að mun fleiri munu standa í röð til að berja Elísabetu augum hinsta sinni.

Eins er ljóst að sorgarviðbrögðin verða stórfelld enda dugir ekki mínútu þögnin ein þegar jafn dáður þjóðhöfðingi fellur frá. Þegar Díana prinsessa lést komu tugir þúsunda manna með blóm að Buckingham-höll og segir Business Insider að allt upp í milljón blómvendir hafi verið lagðir að hallarhliðunum í heildina. 20 milljónir punda söfnuðust í minningarsjóð, fólk stóð í röð í yfir tíu klukkutíma til að skrifa í minningarbækur og þrátt fyrir að jarðarfarardagurinn væri ekki yfirlýstur frídagur var fjölmörgum fyrirtækjum lokað og fólk kom alls staðar að til að taka þátt í sorginni á götum Lundúna.

Á jarðarfarardaginn sjálfan verður lík drottningarinnar flutt með hestvagni að Westminster Abbey. Það verður líklega fjölsóttasta jarðarför allra tíma en auk almennings sem mun fylgjast með af götum úti og í gegnum sjónvarp verða allir helstu þjóðarleiðtogar heims þar samankomnir. Yfir milljón manns fylgdust með því þegar líkkista Díönu var flutt til jarðarfarar sinnar og 30 milljónir Breta fylgdust með í sjónvarpi. Á heimsvísu voru allt upp í 2,5 milljarðar áhorfenda.

Athöfnin verður leidd af erkibiskupnum af Kantaraborg sem er annar valdamesti maður bresku biskupakirkjunnar þar sem þjóðhöfðinginn er höfuð hennar.

Að jarðarförinni lokið er komið að greftrun. Segir Business Insider nokkrar líkur á því að Elísabet hafi þegar ákveðið hvar hún skuli grafin og að það verði þá annaðhvort í Sandringham eða í Balmoral í Skotlandi en eignirnar eiga það sameiginlegt að tilheyra drottningunni sjálfri en ekki krúnunni sem slíkri. Eins gæti verið að hún verði grafin við kapellu heilags Georgs í Windsor þar sem faðir hennar hvílir.

Fáni Buckingham hallar í hálfa stöng eftir andlát Nelson Mandela …
Fáni Buckingham hallar í hálfa stöng eftir andlát Nelson Mandela árið 2013. AFP

Krýning ári síðar

Eftir viðeigandi langt sorgartímabil, allt upp í ár, mun fara fram krýningarathöfn. Athöfnin er bundin sterkum hefðum en þjóðhöfðinginn mun þó geta haft hana eftir eigin höfði, enda verður hann þá þegar orðinn konungur. Þar sem vald Karls sem þjóðhöfðingja kemur ekki frá krýningarathöfninni gæti hann valið að sleppa henni alfarið. Haldi hann í hefðina fer athöfnin fram í Westminster Abbey og líkt og í jarðarförinni mun erkibiskupinn stýra henni.

Aftur mun fólk flykkjast á götur út og mikið verður um veisluhöld. Eftir brúðkaup Vilhjálms prins og Katrínar  árið 2011 voru þúsundir af götuveislum haldnar um allt Bretland og það sama mun gerast á krýningardaginn.

Auk beins kostnaðar við viðburðinn tapaði Bretland milli 1,2 og 6 milljörðum punda á brúðkaupsdeginum þar sem hann var frídagur.

AFP

Ný mynt og ný vegabréf

Þó svo að drottningin sé grafinn og konungur tekinn við er enn ekki öll sagan sögð þar sem hundruð minni og stærri breytinga munu eiga sér stað á vikunum og mánuðunum sem fylgja. Ný mynt verður prentuð og slegin samstundis með hliðarsvip Karls sem mun þegar hafa verið undirbúinn. Ekki verður reynt að skipta öllum gjaldmiðlinum út með hið sama og líða munu nokkur ár áður en andlit Elísabetar fer úr umferð.

Þjóðsöngurinn „God Save The Queen“ verður eðli málsins samkvæmt að „God Save The King“ aftur. Lögreglumenn munu þurfa nýjar merkingar á hjálma sína sem nú skarta upphafstöfum og tölu drottningarinnar. Sama gildir um mikið af herbúnaði.

Vegabréf munu þurfa andlitslyftingu þar sem það verður ekki lengur í nafni „hennar hátignar“ sem eigendur þeirra munu fá að ferðast um auk þess sem gefa þarf út ný frímerki með andliti Karls í stað móður hans.

Allt þetta skiptir meira máli en margur myndi ætla. Eftir að Elísabet var krýnd olli tala hennar - II - miklu uppnámi í Skotlandi. Það var aldrei til skosk Elísabet I. og þó svo að það sama gilti um önnur yfirráðasvæði drottningar utan Bretlands var það aðeins í Skotlandi sem póstkassar með innsigli hennar voru eyðilagðir af skemmdarvörgum vegna þessa.

Á meðan ýmis ummerki um drottninguna verða þurrkuð út munu önnur rísa. T.a.m. hefur fyrrverandi borgarstjóri Lundúna, Ken Livingstone, látið hafa eftir sér að fjórði stöpullinn á Trafalgar-torgi, sem borið hefur ýmis flökkulistaverk á síðustu árum, sé ætlaður styttu af Elísabetu sem rísa muni eftir dauða hennar.

Elísabet ásamt Filippusi prins, eiginmanni sínum eftir afmælisskrúðgöngu síðan árið …
Elísabet ásamt Filippusi prins, eiginmanni sínum eftir afmælisskrúðgöngu síðan árið 2012. AFP

Mun samveldið líða undir lok?

En styttur og vegabréf eru smáræði miðað við þær afleiðingar sem andlát drottningarinnar gæti haft fyrir breska samveldið.

Í samveldinu eru 53 lönd en þar á meðal eru 16 ríki þar sem drottningin er opinber þjóðhöfðingi, þar á meðal Ástralía, Kanada, Jamaíka, Nýja-Sjáland og Barbados. Samveldið er það sem eftir stendur af breska heimsveldinu og er í dag viðskipta- og stjórnmálabandalag. Það hefur lítil opinber völd en mikla táknræna þýðingu. Mörg ríkin voru gerð hluti af heimsveldinu gegn vilja sínum og næstum öll hafa þau lýst yfir sjálfstæði. Þegar Elísabet fellur frá munu sum þeirra hugsanlega kjósa að höggva á þessi síðustu formlegu tengsl við herraþjóðina fyrir fullt og allt.

Ástralía hélt t.a.m. þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort landið ætti að verða lýðveldi árið 1999 og þó svo að konungssinnar hefðu sigurinn með 55 prósentum gegn 45 prósentum var munurinn sannarlega ekki mikill. Stuðningurinn tengdist fylgi við drottninguna sjálfa að miklu leyti en Karl sonur hennar hefur alls ekki úr jafn miklu persónufylgi að moða.

Það fer svo allt eftir því hvernig Karl hegðar sér í embætti hvort krúnan mun halda velli í Bretlandi. Þó er ljóst að enn er langt í að tími hennar líði undir lok þar sem mikill meirihluti Breta telur landinu best borgið sem konungsveldi.

AFP

Þetta eru auðvitað allt vangaveltur enn sem komið er og vonandi er enn langt í að hægt verði að segja hvað verður fyrir víst. Elísabet hefur ríkt lengst allra forvera sinna í embætti, jafnvel lengur en Viktoría amma hennar. Hún virðist líka hvergi nærri hætt. Í fyrra kom hún 393 sinnum opinberlega fram og hennar einu föstu frídagar eru jóla- og páskadagur. Ólíklegt er að hún fái frí á níræðisafmæli sínu í apríl næstkomandi enda verður mikið um dýrðir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert