Andstæðingar fóstureyðinga ákærðir

Andstæðingar fóstureyðinga mótmæla fyrir utan framkvæmdir við nýja heilsugæslustöð Planned …
Andstæðingar fóstureyðinga mótmæla fyrir utan framkvæmdir við nýja heilsugæslustöð Planned Parenthood. AFP

Ákærudómstóll í Houston sem rannsakaði meinta glæpi Planned Parenthood hefur hreinsað heilsugæslustofnunina af öllum ásökunum. Þess í stað hefur hann hins vegar ákært leiðtoga hóps sem er andsnúinn fóstureyðingum sem gerði leynilegar upptökur sem áttu að sýna starfsmenn Planned Parenthood í glæpsamlegu ljósi.

David Daleiden fer fyrir samtökunum Center for Medical Progress en þau gerðu leynilegar upptökur af starfsmönnum Planned Parenthood. Upptökurnar voru birtar opinberlega og héldu samtökin því fram að þau sýndu starfsmennina stunda ólögleg viðskipti með líkamsparta fóstra sem eytt væri á heilsugæslustöðvum Planned Parenthood.

Upptökurnar vöktu töluverða athygli og urðu þær íhaldssömum stjórnmálamönnum tilefni til þess að leggja til að öllum opinberum fjárveitingum til Planned Parenthood yrði hætt. Svo virðist einnig sem að maður sem gerði skotárás á einni heilsugæslustöð stofnunarinnar í Colorado í nóvember hafi vísað til upptakanna þegar hann var handtekinn eftir að hafa skotið þrjá til bana.

Daleiden og einn starfsmanna hans hefur nú verið ákærður fyrir að eiga við opinber skjöl og minniháttar afbrot sem tengist kaupum á vef úr mönnum, að því er kemur fram í frétt Washington Post. Ekki kemur fram í ákærunni hvernig fulltrúar samtakanna áttu við gögn en fyrr í þessum mánuði stefndi Planned Parenthood þeim og hélt því fram að fulltrúar þeirra hefðu brotið ýmis alríkislög.

Ríkisstjóri Texas, repúblikaninn Greg Abbott, segir að niðurstaða ákærudómstólsins hafi engin áhrif á rannsókn heilbrigðisyfirvalda ríkisins og ríkissaksóknara þess á háttsemi Planned Parenthood.

„Texas-ríki mun halda áfram að verja líf og ég mun halda áfram að styðja löggjöf sem bannar sölu eða afhendingu fósturvefs,“ sagði í yfirlýsingu frá Abbott sem er andstæðingur fóstureyðinga.

Planned Parenthood veitir konum í Bandaríkjunum ýmis konar heilbrigðisþjónustu, þar á meðal fóstureyðingar.

Fyrri frétt mbl.is: „Ekki fleiri barnshlutar“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert