Ber ekki ábyrgð á móðgandi athugasemdum

mbl.is

Netfréttamiðlar bera ekki ábyrgð á „móðgandi og dónalegum“ athugasemdum lesenda, samkvæmt Mannréttindadómstól Evrópu. Dómstóllinn komst að þessari niðurstöðu eftir að fasteignafyrirtæki höfðaði mál gegn ungversku vefsíðunni Index.hu.

Málið varðaði röð reiðilegra athugasemda sem lesendur birtu á vefsíðunni og beindust að fasteignafyrirtækinu. Einn skrifaði: „Fólk á borð við þetta ætti að skíta broddgelti og eyða öllum peningunum sínum í legsteina mæðra sinna þar til það dettur dautt niður.“

Umrætt fasteignafyrirtæki, sem ekki er nafngreint, höfðaði mál gegn Index.hu auk samtaka ungverskra internetfyrirtækja vegna birtingu athugasemdanna og  hafði sigur fyrir dómstólum í heimalandinu.

Samkvæmt Index.hu voru athugasemdirnar fjarlægðar um leið og fyrirtækið fékk vitneskju um þær, en aðstandendur miðilsins sögðust ekki geta borið ábyrgð á öllu því sem lesendur skrifuðu á vefsíðuna.

Lögmenn miðilsins sögðu að það myndi hafa alvarlegar afleiðingar fyrir tjáningafrelsið og lýðræðislega umræðu ef hann yrði gerður ábyrgur.

Mannréttindadómstólinn komst að sömu niðurstöðu og sagði að ungverskir dómstólar hefðu átt að vega þörfina fyrir að koma í veg fyrir svívirðingar á móti réttinum til tjáningarfrelsis.

„Þrátt fyrir að þær væru móðgandi og ósæmileg, voru umræddar athugasemdir ekki ólögmæt orðræða, og sannarlega ekki hatursorðræða eða hvatning til ofbeldis,“ segir í niðurstöðum dómsins.

Stjórnvöld í Ungverjalandi hafa oft verið gagnrýnd fyrir afstöðu sína til fjölmiðla og forsætisráðherrann Viktor Orban hefur verið ásakaður um að hefta frelsi þeirra. Ný lög um fjölmiðla voru sett í landinu árið 2011 og 2014 var tekin upp fjölmiðlaskattur, sem var sagður settur til höfuðs erlendum fjölmiðlum og miðlum óvilhöllum stjórn Orban.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert