Cruz og Clinton fengu flest atkvæði

Öld­unga­deild­arþingmaður­inn Ted Cruz frá Texas fór með sigur af hólmi í forvali Repúblikanaflokksins í Iowa og allt bendir til þess að Hillary Clinton hafi fengið flest atkvæði hjá demókrötum.

Sigur Cruz kom ýmsum á óvart enda höfðu skoðanakannanir bent til þess að kaupsýslumaðurinn Donald Trump yrði fyrir valinu hjá repúblikönum í Iowa en um er að ræða fyrstu forkosningarnar hjá báðum flokkum fyrir forsetakosningarnar.

Ted Cruz
Ted Cruz AFP

Cruz fékk 27,7% atkvæða en helsti keppinautur hans Trump fékk um 24%. Cruz þakkaði guði fyrir sigurinn og segir að þetta sé sigur hugrakkra íhaldsmanna víðsvegar um Iowa og allrar þjóðarinnar. Öldungadeildarþingmaðurinn Marco Rubio hafnaði í þriðja sæti með 23% atkvæða.

Cruz er sagður lengst til hægri af þeim frambjóðendum sem hér hafa verið nefndir en hann nýtur einmitt hylli innan Teboðshreyfingarinnar.

Cruz er af nokkuð fjölbreyttum uppruna en í æðum hans rennur kúbanskt, írskt og ítalskt blóð. „Einhvern veginn endaði ég samt sem kristinn suðurríkjamaður,“ hefur hann sagt.

Rubio er frá Flórída. Hann er af kúbönsku bergi brotinn og vinsæll meðal spænskumælanda fólks í Bandaríkjunum. Rubio, sem er mjög trúaður, þykir langt til hægri og hefur meðal annars talað fyrir umbótum í málefnum innflytjenda og eflingu herafla Bandaríkjanna. 

Enn er ekki búið að telja öll atkvæði hjá demókrötum en þegar 99% atkvæða hafa verið talin er Hillary Clinton með 49,9% atkvæða en hennar helsti keppinautur, Bernie Sanders er með 49,6%. Það er því vart hægt að tala um sigurvegara hjá demókrötum. 

Hillary Clinton
Hillary Clinton AFP

Sanders hefur haft mikinn meðbyr síðustu vikur og mælist mun betur hjá ungu fólki en Clinton, sem treystir á stuðning hjá hefðbundnum kjósendum í forkosningum demókrata. Hún tapaði í Iowa árið 2008 þar sem sem Barack Obama, núverandi forseti Bandaríkjanna, fór með sigur af hólmi. 

Ljóst er að vart er hægt að tala um sigurvegara þegar kemur að forvali Demókrataflokksins í Iowa og stefnan verður tekin til New Hampshire þar sem næsta atkvæðagreiðsla fer fram. Clinton höfðar mest til kvenna og eldri kjósenda og telja stjórnmálaskýrendur að hún muni notfæra sér það að ef hún verði kjörin þá verði hún fyrsta konan til þess að gegna embætti forseta Bandaríkjanna. 

Það fækkaði í hópi þátttakenda í forvali repúblikana í gær er Mike Huckabee tilkynnti um að hann væri hættur. Tilkynning hans barst eftir að ljóst var að hann naut aðeins stuðnings 1,8% kjósenda í forvalinu í Iowa í gær.

Bernie Sanders
Bernie Sanders AFP
Donald Trump
Donald Trump AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert