Elsti fanginn tekinn af lífi

Brandon Astor Jones.
Brandon Astor Jones. AFP

Brandon Jones var tekinn af lífi í Georgiu ríki í nótt eftir að hafa verið á bak við lás og slá á dauðadeild í meira en 36 ár. Aftakan fór fram nokkrum dögum fyrir 73 ára afmæli Jones en hann var elsti fanginn á dauðadeild í Bandaríkjunum.

Brandon Jones var tekinn af lífi með banvænni lyfjasprautu í ríkisfangelsinu í Jackson en hann var dæmdur til dauða fyrir morð á hvítum afgreiðslumanni á bensínstöð árið 1979. Gagnrýnendur dauðarefsinga segja Jones dæmi um tvöfalda refsingu sem margir dauðadæmdra fanga þurfi að upplifa. Það er að eyða áratugum á bak við lás á slá í einangrun án þess að eiga nokkra aðra útgönguleið en dauðann.

Hæstaréttardómarinn, Stephen Breyer, fjallaði um þetta í fyrra og sagði þetta brot á stjórnarskrá Bandaríkjanna að halda föngum svo lengi á dauðadeild. Benda ýmsir á það að margir þeirra sem hafi setið lengi á dauðadeild séu fangar sem voru dæmdir á þeim tíma sem réttarkerfið var öðruvísi í Bandaríkjunum og í flestum tilvikum yrðu viðkomandi ekki dæmdir  til dauða í dag fyrir brot sín.

Jones og félagi hans Van Solomon, báðir svartir, voru dæmdir til dauða fyrir að hafa drepið afgreiðslumann á bensínstöð er þeir rændu stöðina. Jones neitaði alltaf að hafa skotið afgreiðslumanninn og saksóknari lýsti því aldrei í saksókninni hver skaut afgreiðslumanninn. Solomon var tekinn af lífi í rafmagnsstólnum árið 1985.

Dómari fór fram á það á sínum tíma að kviðdómur færi aftur yfir dóm Jones þar sem kviðdómendur höfðu verið með biblíuna í herberginu hjá sér þegar þeir ræddu mögulega refsingu hans. Dómur yfir Jones var kveðinn upp á nýjan leik árið 1997 og var niðurstaðan sú sama, dauðadómur.

Á þeim áratugum sem hann var í fangelsinu lagði Jones fyrir sig skrif og lestur og varð þekktur fyrir skrif sín um lífið í fangelsi og málefni ólíkra kynþátta.

Alls eru 75 á dauðadeild í Georgíu en þar var aftökum frestað um nokkra mánuði í fyrra vegna deilna um lyfin sem notuð voru við aftökur. 28 voru teknir af lífi í Bandaríkjunum í fyrra og hafa aftökurnar ekki verið jafn fáar síðan 1991.

Meira um málið á AJC.com

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert