Segja mann hafa sogast út úr flugvél

Skjáskot úr myndbandi sem farþegi í vélinni tók upp.
Skjáskot úr myndbandi sem farþegi í vélinni tók upp.

Sprenging sem reif gat á skrokk flugvélar neyddi flugmenn hennar til þess að lenda í Mógadisjú í Sómalíu í gær. Að minnsta kosti tveir farþegar slösuðust lítillega en óstaðfestar heimildir herma að einn farþegi hafi mögulega sogast út um gatið og hrapað til jarðar.

Margt bendir til þess að sprengja hafi sprungið um borð í vélinni en 74 farþegar voru um borð í henni. Hún var á leið til Djíbútí á vegum Daallo Airlines. Lögreglumaður í bænum Balad, utan við höfuðborgina, segir að íbúar þar hafi fundið lík eldri manns sem gæti hafa hrapað úr flugvél.

Serbneska dagblaðið Blic hefur eftir þarlendum flugmanni vélarinnar þrýstingsfall hafi orðið í farþegarýminu við sprenginguna. Til allrar lukku hafi stjórntæki hennar ekki skemmst og honum hafi tekist að lenda vélinu heilu og höldnu.

Flugöryggissérfræðingurinn John Goglia segir aðeins tvennt hafa getað valdið gati á skrokki vélarinnar sem sést greinilega á myndum sem dreift hefur verið á netinu. Annað hvort hafi það verið sprengja eða galli í ytra byrði vélarinnar hafi valdið sprengingu vegna þrýstingsmunar innan og utan þess.

Þær staðreyndir að gatið á vélinni virðist sótsvart og að sprengingin hafi átt sér stað áður en flugvélin náði mestri flughæð þar sem loftþrýstingsmunurinn er mestur benda ennfremur til þess að sprengja hafi sprungið.

Frétt The Guardian af sprengingunni

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert