Assange gefur sig jafnvel fram á morgun

Julian Assange
Julian Assange AFP

Stofnandi Wikileaks, Julian Assange, segir að hann muni gefa sig fram við lögreglu í Bretlandi á morgun ef sérstakur dómstóll á vegum Sameinuðu þjóðanna kemst að þeirri niðurstöðu að honum hafi ekki verið haldið með ólöglegum hætti.

Assange fékk hæli í sendiráði Ekvador í vesturhluta Lundúna í júní 2012 til þess að komast hjá því að verða framseldur til Svíþjóðar en þar er honum gert að svara til saka vegna kæru um kynferðislegt ofbeldi. Hann segir kæruna ranga. Árið 2014 leitaði hann til SÞ þar sem hann taldi að handtökuskipunin væri geðþóttaákvörðun.

Assange sagði á Twitter í nótt að hann myndi sætta sig við ákvörðun dómstólsins í máli hans en hann vonist til þess að verða frjáls maður dæmi hann í honum í hag. Fjallað er um mál Assange á vef BBC.

Von er á niðurstöðunni í máli Assange á morgun en um er að ræða hóp lögspekinga á vegum SÞ (Working Group on Arbitrary Detention) sem hefur fengið gögn um mál Assange bæði frá yfirvöldum í Bretlandi og Svíþjóð. Þrátt fyrir niðurstöðu dómstólsins þá gengur hann ekki framar ákvörðun breskra og sænskra yfirvalda.

Assagne var fyrst handtekinn í Lundúnum árið 2010 á grundvelli evrópskrar handtökuskipunar á hendur honum sem sænsk yfirvöld gáfu út. Honum var veitt hæli í Ekvador og kom inn í sendiráð landsins í Knightsbridge eftir að hæstiréttur Bretlands úrskurðaði að það mætti framselja hann til Svíþjóðar.

Uppljóstrunarsamtökin Wikileaks hafa birt leyniskjöl bandarískra yfirvalda á netinu og telur Assange að stjórnvöld í Bandaríkjunum fari fram á að hann verði framseldur þangað frá Svíþjóð ef hann kemur þangað til lands vegna kærunnar um kynferðislegt ofbeldi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert